
Tugir þúsunda Georgíumanna fóru út á götur höfuðborgar sinnar Tblisi sunnudaginn 3. júlí og létu í ljós reiði sína yfir því að ríkisstjórninni hefði mistekist að gera umbætur á stjórnarháttum í landinu til að búa í haginn fyrir umsókn um aðild að Evrópusambandinu (ESB).
Lýðræðissinnar og aðrir sem stóðu að kröfunum á hendur stjórnvöldum lýstu einnig stuðningi við Úkraínumenn í vörn þeirr gegn innrás Rússa. Hlutar Georgíu eru hernumdir af Rússum eftir innrás þeirra í landið árið 2008.
Undir fánum ESB og Georgíu lokuðu mótmælendur umferð um miðborg Tblisi og kröfðust þess að Irakli Garibashvili forsætisráðherra og stjórn hans segði af sér og við tæki stjórn í anda „þjóðarsáttar“.
Mótmælabylgja fór af stað í Georgíu undir lok júní þegar leiðtogaráð ESB neitaði að viðurkenna landið sem „umsóknarríki“ um aðild að ESB eins og Úkraínu og Moldóvu. Georgía fékk stöðu „hugsanlegs aðila“ þar til komið hefði verið til móts við ESB-skilyrði og gengið til víðtækra umbóta.
Garibashvili hefur látið þau orð falla að stjórn sín „taki til hendi“ til að verða við kröfum Brusselmanna svo að Georgia fái stöðu umsóknarríkis „eins fljótt og verða má“.
Forystumenn mótmælenda í Georgíu hafa birt yfirlýsingu þar sem boðað er að stofnuð verði fjöldahreyfing með þátttöku stjórnarandstöðuflokka, frjálsra félagasamtaka, blaðamanna og verkalýðsfélaga til að fylgja eftir kröfum á hendur ríkisstjórninni.
Í yfirlýsingunni segir að sá sem standi einkum í vegi fyrir því að þjóðin eigi greiða leið til aðildar að ESB sé Bidzina Ivanishvili, milljarðamæringur sem stofnaði stjórnarflokkinn, Draumaflokk Georgíu, og talinn er eiga lokaorðið um allar ákvarðanir stjórnvalda þótt hann gegni engu opinberu embætti.
ESB-þingið samþykkti ályktun í maí þar sem framkvæmdastjórn ESB var hvött til að beita Ivanishvili refsiaðgerðum fyrir „eyðileggjandi hlutverk“ hans í stjórn- og efnahagsmálum Georgíu. Ivanishvili segist ekki hafa nein afskipti af stjórnmálum lengur. Ályktun ESB-þingsins skuldbindur ekki framkvæmdastjórn ESB.
Á Facebook-síðu mótmælendanna í Georgíu er Ivanishvili hvattur til að „afsala sér framkvæmdavaldi og færa það, á stjórnskipulegan hátt, til ríkisstjórnar þjóðarsáttar“.
Þá segir í yfirlýsingunni að ný ríkisstjórn eigi „að framkvæma umbæturnar sem krafist er af ESB“ með því verði Georgía sjálfkrafa að ESB-umsóknarríki. Mótmælum verði ekki hætt.
Skilyrði framkvæmdastjórnar ESB gagnvart stjórninni í Tblisi snúast meðal annars um að áhersla á átakastjórnmál minnki, fjölmiðlafrelsi aukist, sjálfstæði dómstóla styrkist, kosningalögum sé breytt og ítökum auðmanna séu settar skorður.
Forystumenn Draumaflokksins segja að þeir virði lýðræðislegar meginreglur og saka stjórnarandstöðuna um að ætla að bylta stjórn landsins með mótmælaaðgerðum.
Kannanir sýna að minnst 80% Georgíumanna vill ganga í ESB og NATO af ótta við Rússa. Þeir hafa löngum reiðst illilega vegna viðleitni Georgíumanna til að efla tengsl sín til vesturs. Spenna í samskiptum þjóðanna náði hámarki árið 2008 þegar Rússar réðust inn í Georgíu og viðurkenndu síðan Suður-Ossetíu og Abkhaziu sem sjálfstæð ríki og sendu þangað þúsundir hermanna.
Heimid: RFE/RL
Frá mótmælum í Tblisi, höfuðborg Georgiu.