Home / Fréttir / Mótmæla kosningaofbeldi í Moskvu

Mótmæla kosningaofbeldi í Moskvu

Rússneska baráttukonan Ljubov Sobol var tekin föst í stutta stund.
Rússneska baráttukonan Ljubov Sobol var tekin föst í stutta stund.

Aðgerðasinnar meðal rússneskra stjórnarandstæðinga ætla að efna til mótmæla í Moskvu laugardaginn 27. júlí þótt yfirvöld hafi ekki veitt heimild til þeirra. Fyrr í vikunni handtók lögreglan Alexei Navalníj, forystumenn meðal þeirra sem halda uppi gagnrýni á Vladimír Pútín Rússlandsforseta og stjórn hans.

Rússneska baráttukonan Ljubov Sobol var tekin föst í stutta stund snemma föstudags 26. júlí fyrir utan höfuðstöðvar kjörstjórnarinnar í Moskvu. Hún vill bjóða sig fram í borgarstjórnarkosningunum sem verða sunnudaginn 8. september. Hún sagði á Twitter að verðir hefðu borið hana út úr skrifstofu kjörstjórnarinnar þegar hún hlýddi ekki fyrirmælum um að yfirgefa staðinn. Það var farið með hana til skýrslutöku á lögreglustöð og hún sökuð um að hindra störf kjörstjórnarinnar.

Að kvöldi miðvikudags 24. júlí ruddist lögregla inn á heimili fjögurra einstaklinga úr hópi stjórnarandstæðinga. Meðal þeirra var Dmitríj Gudkov. Hann og eiginkona hans sögðu á Twitter að 10 lögreglumenn hefðu komið heim til þeirra á miðvikudagskvöld, lokað fyrir internetið í hálftíma og tekið tölvudiska sem tengdust mótmælunum.

Stjórnarandstæðingar efna til þessara aðgerða í von um að tryggja að frambjóðendur þeirra fái að taka þátt í borgarstjórnarkosningunum í Moskvu í september.

Áður en Navalníj var handtekinn á miðvikudaginn og settur í 30 daga fangelsi hafði hann hvatt almenning til að mótmæla því í Moskvu á laugardeginum að stjórnarandstæðingar fengju ekki að bjóða sig fram í Moskvu í september.

Fram hefur komið að frambjóðendur Pútins og félaga njóti lítilla vinsælda meðal kjósenda. Þetta hefur vakið stjórnarandstæðingum vonir um að þeir geti hugsanlega náð öflugri fótfestu í höfuðborginni.

Yfrvöldin segja frambjóðendurna ekki hafa aflað sér nógu margra meðmælenda.

Þetta eru ekki fyrstu mótmælin til stuðnings stjórnarandstæðingum í sveitarstjórnarkosningunum. Um tuttugu þúsund manns gengu þeim til stuðnings um götur Moskvu 20. júní sl.

 

 

 

 

Skoða einnig

Drónaárás gerð á Moskvu

Ráðist var með drónum á Moskvu, höfuðborg Rússlands, að morgni þriðjudags 30. maí. Svo virðist …