Home / Fréttir / Moskva: Yfirbókavörður sakaður um ólögmæta dreifingu á efni frá Úkraínu

Moskva: Yfirbókavörður sakaður um ólögmæta dreifingu á efni frá Úkraínu

 

 

Natalia Sharina, yfirbókavörður Safns úkraínskra bókmennta í Moskvu.
Natalia Sharina, yfirbókavörður Safns úkraínskra bókmennta í Moskvu.

Natalia Sharina, yfirbókavörður Safns úkraínskra bókmennta í Moskvu, hefur verið ákærð fyrir að hvetja til óvildar í garð Rússa. Hún hefur setið í stofufangelsi í meira en eitt ár en mál hennar er nú komið fyrir dómstóla. Í ákærunni er Sharina sökuð um að hafa dreift bókmenntum sem skilgreindar eru sem öfgakenndar.

Hún hafnar þessum ásökunum og lögfræðingur hennar segir við BBC að undirrót ákærunnar sé pólitísk.

Í upphafi réttarhaldanna miðvikudaginn 2. nóvember kom til harðra orðaskipta milli bókavarðarins og saksóknarans.

Í upphafi máls síns vísaði saksóknarinn til langs lista sem hafði að geyma nöfn á útgáfuverkum frá Úkraínu sem væru annaðhvort bönnuð eða sérfræðingar teldu „niðurlægjandi“ fyrir Rússa. Það hefði verið saknæmt að afla þessa efnis og setja í bókasafnið.

Yfirbókavörðurinn svaraði: „Ég skil ekki hvað felst í ákærunni og finn því ekki til neinnar sektar. Saksóknarinn verður að skýra fyrir mér hvað ég hef í raun gert til að ýta undir óvild.“

Fyrir utan að vera sökuð um miðlun á efni frá Úkraíni er Sharina ákærð fyrir að hafa misfarið með fé.

Ivan Pavlov, lögfræðingur Sharinu segir að vitni hafi séð lögreglumenn lauma bönnuðum bókum inn í bókasafnið þegar þeir komu þar til húsleitar í október 2015. Hann sagði við BBC að málaferlin bæru vott um að stjórnvöld í Moskvu gerðu allt sem snerti Úkraínu tortryggilegt af pólitískum ástæðum.

Hann segir enga tilviljun að húsleit hafi verið gerð í bókasafni með efni frá Úkraínu en ekki frá Hvíta Rússlandi eða um kósakka.

Málið verður tekið fyrir að nýju eftir þrjár vikur. Natalia Sharina verður áfram í stofufangelsi eins og hún hefur verið í meira en eitt ár. Það var fyrst fyrir skömmu sem henni var leyft að fara í daglegar gönguferðir en henni er bannað að tala beint við fjölmiðlamenn.

Verði Natalia Sharina fundin sek kann meira en 10 ára fangelsisvist að bíða hennar.

 

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …