Home / Fréttir / Moskva: Navalníj fluttur úr fangelsi á sjúkrahús

Moskva: Navalníj fluttur úr fangelsi á sjúkrahús

Aleksei Navalníj.
Aleksei Navalníj.

Aleksei Navalníj, helsti forystumaður rússneskra stjórnarandstæðinga, var fluttur með hraði úr fangelsi á bráðamóttöku sjúkrahúss í Moskvu sunnudaginn 28. júlí. Engin staðfest sjúkdómsgreining hefur verið birt.

Eldar Kazakhmedov, læknir í meðferðadeild sjúkrahússins, sagði rússnesu fréttastofunni Interfax mánudaginn 29. júlí að sjúklingurinn hefði verið greindur með „almenn ofnæmisviðbrögð“ og erfitt væri að segja um undirrót þeirra.

Haft var eftir ótilgreindum fulltrúa sjúkrahússins að líðan Navalníjs væri „viðunandi“. Heimildarmaður AFP-fréttastofunnar sagði að líkamshiti hans mældist 36,6° á Celsíus.

Anastasia Vasiljeva, læknir Navalníjs, lét í ljós áhyggjur um að honum hefði verið byrlað eitur. Hún átti stutt orðaskipti við Navalníj (43 ára) og sá til hans í gegnum dyragætt sunnudaginn 28. júlí. Á Facebook-síðu sinni kvartaði hún undan að yfirvöld bönnuðu henni að hitta hann og rannsaka á fullnægjandi hátt. Þá hefur hún sakað sjúkrahúslæknanna um að kanna ekki til hlítar ástæðuna fyrir veikindum Navalníjs.

Hann var úrskurðaður í 30 daga fangavist miðvikudaginn 24. júlí. Hann hefur verið handtekinn og lokaður inni um það bil tólf sinnum undanfarin ár og dvalist meira en 200 daga bak við lás og slá.

Kira Jarmíjsh, fjölmiðlafulltrúi Navalníjs, sagði hann hafa verið fluttan á sjúkrahús að morgni sunnudagsins 28. júlí, hann hafi verið bólginn í andliti og með útbrot. Aldrei áður hefði hann fundið fyrir ofnæmi.

Leonid Volkov, helsti aðstoðarmaður Navalníjs, sagði síðar á Twitter að hann hefði fengið svipuð sjúkdómseinkenni í júní þegar hann afplánaði refsingu í sama klefa og Navalníj nú. Volkov hafnaði „samsæriskenningum“ en sagði brýna þörf á að rannsaka þrifnað í fangelsinu.

 

 

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …