Home / Fréttir / Moskva: Meira en 1.000 mótmælendur handteknir

Moskva: Meira en 1.000 mótmælendur handteknir

Kröfum hsldið sð lögreglunni.
Kröfum haldið að lögreglunni.

Rússneska lögreglan handtók meira en 1.000 manns í miðborg Moskvu laugardaginn 27. júlí þegar efnt var til mótmæla þar til stuðnings frelsi til framboða í sveitarstjórnarkosningum í september. Þetta eru viðamestu lögregluaðgerðir í borginni um langt árabil. Andstaða við harðstjórn Valdimírs Pútíns Rússlandsforseta vex í landinu.

Áður en til mótmælanna kom höfðu yfirvöld beitt lögreglunni og áróðurstækjum sínum til að fæla frá þátttöku í þeim. Sögðu opinberir aðilar að um 3.500 hefðu mætt til mótmælanna. Lögregla lokaði fyrir netmiðlun frá aðgerðunum.

Kjörstjórn segir að frambjóðendum hafi verið bannað að leggja fram lista þae sem þá skorti meðmælendur. Stjórnarandstæðingar segja þetta rangt.

Leiðtogi stjórnarandstæðinga, Alexei Navalníj, var handtekinn miðvikudaginn 24. júlí og lokaður inni í 30 daga fyrir að hvetja til mótmælanna. Auk þess voru stjórnarandstæðingarnir Ilja Jashin, Dmitríj Gudkov og Ivan Zhdanov, helsti aðstoðarmaður Navalníjs teknir fastir.

Í borgarstjórn Moskvu sitja 45 fulltrúar og þar skipa flokksmenn Pútíns úr Sameinuðu Rússlandi nú meirihluta en þeir eru taldir eiga undir högg að sækja meðal kjósenda. Kjörtímabilið er 5 ár og verða kosningarnar sunnudaginn 8. september.

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …