
Hæstiréttur í Moskvu gaf þriðjudaginn 28. desember fyrirmæli um að loka skyldi skrifstofu frjálsu samtakanna Memorial International. Voru samtökin talin brjóta lög með því að stimpla ekki á bækur sínar orðin „erlendur umboðsmaður“ (e. foreign agent) þótt þau fengju styrki frá Kanada, Póllandi, Tékklandi og Þýskalandi.
Daginn eftir miðvikudaginn 29. desember lokaði sami hæstiréttur mannréttindadeild samtakanna, Memorial Human Rights Center, sem tekur til varna fyrir rússneska andófsmenn nú á tímum.
Alexei Zhafjarov ríkissaksóknari sverti málstað Memorial með ásökunum í anda núverandi ráðamanna þegar hann sagði:
„Það er augljóst að Memorial gefur ranga mynd af Sovétríkjunum með því að segja þau hafa verið hryðjuverkaríki og með getsökum um pólitískar kúganir á 20. öldinni.“
Henry Reznik, lögmaður Memorial, sagði að í dóminum fælist „pólitísk ákvörðun“ sem „minnti á fjórða áratug 20. aldar“.
Memorial International samtökin voru stofnuð á tíunda áratugnum til að skrá heimildir um þjóðarmorð Stalíns, harðstjóra í Sovétríkjunum, á Rússum, Úkraínumönnum, Pólverjum og öðrum þjóðum.
Utanríkisráðuneyti Þýskalands og Bandaríkjanna auk utanríkisskrifstofu ESB hafa lýst vanþóknun á dóminum.
Þýska ráðuneytið sagði dóminn „meira en óskiljanlegan“.
Alþjóðleg mannréttindasamtök og samtök til minningar um gyðingaofsóknirnar, Holocaust-samtök, fordæmdu niðurstöðu dómstólsins í Moskvu.
Toomas Hendrik Iaalso, fyrrv. forseti Eistlands, sneri sér að rússneskum ráðamönnum og sagði: „ Haldið þið að fólk gleymi? Eða viti ekki hvað forverar ykkar gerðu? Við hér í Eistlandi þekkjum nafn hvers einasta sem var drepinn hér. Enginn gleymir því.“
Litið er á lokun Memorial sem stærsta skrefið sem Vladimir Pútin Rússlandsforseti hefur stigið á árinu eftir að hafa áður þaggað niður í andófsmönnum og sett einn helsta forystumann þeirra, Alexei Navalníj, í fangelsi.
Þeir sem starfað hafa undir merkjum Memorial hafa árum saman setið undir árásum af hálfu rússneskra stjórnvalda sem vilja fegra hlut Stalíns í sögu Rússlands og hefja Pútin á stall í samtímasögunni.
Natalua Estemirova var myrt árið 2009. Hún vann sem félagi í Memorial að því að skrá illvirki Rússa í Tsjetjeníu.
Á vefsíðunni EUobserver segir 29. desember að árið 2009 hafi rússneska ríkisútvarpið, RIA Novosti, reynt að ráða sænska almannatengslafyrirtækið Kreab í Brussel til að koma á framfæri þeim boðskap „að Stalín hafi ekki verið alvondur gaur“.
Undanfarin fimm ár hefur fjöldi Rússa sem telur Stalín „mikinn leiðtoga“ tvöfaldast í 56% samkvæmt könnunum rússneska könnunarfyrirtækisins Levada.
Um 48% Rússa studdu einnig tillögu um að reist yrði nýtt minnismerki um Stalín þrátt fyrir fjöldamorð hans og aftökur fyrir og um miðja síðustu öld.