Home / Fréttir / Moskva: Dæmdur í sjö ára fangelsi fyrir að gagnrýna Úkraínustríðið

Moskva: Dæmdur í sjö ára fangelsi fyrir að gagnrýna Úkraínustríðið

Í réttarsalnum lyfti Goinov blaði með textanum: „Þarftu enn þetta stríð?“

Alexei Gorinov, borgarfulltrúi í Moskvu, var föstudaginn 8. júlí dæmdur í sjö ára fangelsi fyrir að gagnrýna stríð Rússa í Úkraínu. Hann var fundinn sekur um að „dreifa augljóslega röngum upplýsingum“ um rússneska herinn. Taldi dómarinn að hann hefði nýtt sér „opinbera stöðu“ sína í þessum tilgangi og gert það með þátttöku í störfum hóps sem stjórnaðist af „pólitísku hatri“.

Dómarinn taldi að ekki væri unnt að vænta betrunar af hálfu hins seka nema með því að svipta hann frelsi og dæma til sjö ára vistar í fanganýlendu. Hafði Gorinov verið haldi frá 26. apríl.

Áður en dómarinn felldi dóm sinn klöppuðu áheyrendur í réttarsalnum fyrir Gorinov (60 ára). Þá voru þeir sem komu til að styðja hann reknir úr salnum. Litið er á dóminn sem enn eitt dæmið um vilja yfirvalda til að öllum ráðum sé beitt gegn gagnrýni á Pútin-stríðið í Úkraínu.

Enginn annar en Garinov hefur til þessa verið dæmdur til fangelsisvistar fyrir andstöðu við stríðið. Á hinn bóginn bíða nú að minnsta kosi 50 aðgerðarsinnar og gagnrýnendur Kremlverja í gæsluvarðhaldi þess að verða dæmdir.

Í réttarsalnum var glerbúr fyrir Garinov. Skömmu áður en dómarinn kynnti niðurstöðu sína lyfti hann, gráhærður með hörkulegt augnatillit, pappírsblaði fyrir framan myndavélarnar, þar stóð: „Þarftu enn þetta stríð?“

Gorinov er lögfræðingur að mennt. Hann var tekinn fastur í apríl fyrir að hafa á fundi í hverfaráði sínu 15. mars 2022 fordæmt ráðamenn í Moskvu fyrir„stríð“ þeirra og „árás“ á Úkraínu. Var framganga hans kvikmynduð og sett á YouTube sem dómarinn taldi sérstaklega ámælisvert.

Mótmælti Gorinov hugmynd hverfaráðsins um að halda danshátíð barna og keppni í listum. Hvorugt væri ekki við hæfi á sama tíma og „börn týndu lífi“ í nágrannalandinu Úkraínu.

„Beita á öllum kröftum almennra borgara til að binda enda á stríðið og vinna að brottflutningi rússneskra hermanna frá landsvæði Úkraínu,“ sagði hann.

Í réttarsalnum fimmtudaginn 7. júlí áréttaði Gorinov andstöðu sína „gegn öllum stríðum“ og lagði áherslu á að faðir hans hefði „komið farlama heim úr annarri heimsstyrjöldinni“.

Þá nefndi hann opinberlega nafn úkraínsku borgarinnar Butsja. Þar eru Rússar bornir sökum um stríðsglæpi þótt rússnesk yfirvöld segi blóðuga atburði þar sviðsetta og logið sé til um þá.

„Butsja, Irpin og Hostomel. Segja þessi nöfn ykkur eitthvað? Þið, saksóknarar, ættuð að hafa áhuga á þeim, og þið getið ekki sagt síðar að þið vissuð ekkert um þá,“ sagði Gorinov og vék að glæpaverkum Rússa í bæjunum.

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …