
Rússneskir saksóknarar tilkynntu mánudaginn 19. nóvember að þeir hefðu stofnað til nýrrar málsóknar gegn Bill Browder, höfundi bókarinnar Eftirlýstur sem Almenna bókafélagið gaf út fyrir fáeinum árum. Browder er harður gagnrýnandi rússneskra stjórnvalda og Vladimirs Pútíns forseta sérstaklega. Hann sætir nú ákæru fyrir að standa að baki dauða lögfræðings síns Sergeis Magnitskíjs. Hann dó í rússnesku fangelsi.
Rússneskur dómari hefur áður dæmt Browder í níu ára þrælkunarvinnu að honum fjarstöddum. Browder segir fjarstæðukennt að hann hafi byrlað vini sínum og lögfræðingi eitur eins og hann er nú sakaður um að hafa gert.
Magnitskíj var handtekinn fyrir 10 árum, sakaður um að hafa skipulagt skattsvik. Á meðan hann var í gæsluvarðhaldi andaðist hann. Nokkrum mánuðum fyrir andlátið hafði Magnitskíj sakað embættismenn rússneska innanríkisráðuneytisins um að skipuleggja 230 milljón dollara undanskot frá skatti. Hann var þá sakaður um samskonar brot og hann sagðist hafa afhjúpað.
Þegar þetta gerðist hét Bill Browder því að refsa þeim sem áttu aðild að morðinu. Hann hefur síðan lýst sjálfum sér „óvini Pútíns númer eitt“ vegna þess að sér hafi tekist að fá svonefnd Magnitskíj-lög samþykkt í Bandaríkjunum. Í þeim er að finna ákvæði sem beinast persónulega að þeim embættismönnum sem taldir eru bera ábyrgð á dauða lögfræðingsins. Browder hefur barist fyrir því að sambærileg lög verði samþykkt af fleiri þingum, þar á meðal ESB-þinginu.
Nikolai Atmonjev, ráðgjafi rússneska ríkissaksóknarans, sagði að Browder kynni að hafa neytt Magnitskjí til að fara eiðsvarinn með rangt mál og þess vegna viljað sjá hann feigan.
Mikhail Alexandrov, embættismaður ríkissaksóknara, sagði að sakamálaránnsókn væri hafin á því hvort hugsanlega hefði verið notað hernaðarlegt eitur til að drepa Octai Gasanov, Valeríj Kurostjkin, og Sergei Korobeinikov, þrjá menn sem tengdust Browder.
Alexandrov sagði „mjög líklegt“ að einnig hefði verið eitrað fyrir Magnitskíj, hann hefði sýnt svipuð einkenni og þremenningarnir.
Verði Browder fundinn sekur kann að bíða hans 20 ára fangelsisdómur. Atmonjev sagði að innan skamms yrði hann eftirlýstur vegna þessarar ákæru.