Home / Fréttir / Morgunblaðið birtir leiðara um Ísland og GIUK-hliðið

Morgunblaðið birtir leiðara um Ísland og GIUK-hliðið

Map-Iceland-GIUK-Gap-300x278

 

Lesendur vardberg.is hafa fylgst með því hér á síðunni í nokkur misseri að áhugi hernaðarfræðinga á þróun mála á Norður-Atlantshafi hefur aukist jafnt og þétt vegna umsvifa Rússa í sjó og á lofti.

Mánudaginn 6. febrúar. birtir Morgunblaðið leiðara um áhrif þessara breytinga á öryggismál Íslands. Birtist hann hér í heild:

 

Gamlir „vinir“ vakna til lífsins

 

Í nýlegum fréttum má sjá að bandamenn okkar í Norður-Atlantshafi eru farnir að hafa verulegar áhyggjur af stórauknum umsvifum rússneska flotans þar. Á það einkum við um rússneska kafbátaflotann, en Rússar hafa nýtt hann í auknum mæli til þess að fylgjast með því sem Atlantshafsbandalagsþjóðirnar eru að gera heima fyrir.

Greint var frá því fyrir helgi að athygli ráðamanna í þessum löndum hefði aftur færst að GIUK-hliðinu, hafsvæðinu milli Grænlands, Íslands og Stóra-Bretlands, en það spilaði stórt hlutverk í kalda stríðinu. Líklega voru fá hafsvæði á jörðinni undir meira eftirliti en einmitt GIUK-hliðið, og var töluverð geta til kafbátaleitar byggð upp meðfram því, meðal annars í Keflavíkurstöðinni, sem um tíma hlaut viðurnefnið „höfuðborg kafbátavarna í veröldinni“.

 

Þegar kalda stríðinu lauk og Sovétríkin féllu, töldu menn sér hins vegar óhætt að slaka á. Rússneski flotinn var í molum og vindar blésu þannig í alþjóðamálum, að fáir vildu trúa því að aftur yrði þörf á sérstöku kafbátaeftirliti í Norður-Atlantshafi. Kafbátaleit var hætt og herstöðvum lokað víða, þar á meðal hér á landi.

 

En skjótt skipast veður í lofti og síðan hefur komið í ljós hversu misráðin sú ákvörðun ráðamanna í Washington var. Spenna ríkir á ný milli austurs og vesturs í alþjóðamálum. Úkraínudeilan er enn óleyst og talsverð óvissa ríkir um fyrirætlanir Rússa gagnvart Eystrasaltsríkjunum, bandamönnum okkar í Atlantshafsbandalaginu.

 

Í því samhengi má nefna að Rússar hafa á síðustu árum eytt stórfé í að byggja upp herafla sinn á ný, jafnt í lofti, á láði og legi. Sú uppbygging hefur jafnvel verið á kostnað almennra lífskjara í Rússlandi. Rússnesk skip og flugvélar skjóta reglulega upp kollinum, og minnir það um margt á hegðun feðra þeirra og afa í kalda stríðinu.

 

Í kjölfarið er ekki nema eðlilegt að áhugi vakni á því að hefja aftur eftirlit með GIUK-hliðinu, en aðstæður eru talsvert aðrar nú en þær voru fyrir 25 árum. Kafbátatækninni hefur fleygt fram og gæti það reynst örðugt að byggja upp á ný sambærilega eftirlitsgetu og til staðar var þá, ef pólitískur vilji væri til þess.

 

Enn á ný neyðir lega landsins okkur Íslendinga til þess að fylgjast vel með framvindu þessara mála. Þá er sjálfsagt að íslensk stjórnvöld kanni hug nágrannaríkja okkar til kafbátaleitar, sem og hvernig þau telja að Ísland geti lagt sitt af mörkum til varnarsamstarfs vestrænna ríkja.

 

 

Skoða einnig

Úkraínustjórn fordæmir erlenda „eftlrlitsmenn“ rússneskra svikakosninga á hernumdum svæðum í Úkraínui

Úkraínsk stjórnvöld hafa harðlega gagnrýnt kosningarnar sem efnt var til undir stjórn Rússa á hernumdum …