
Þýsk yfirvöld hafa tekið höndum mann sem grunaður er um að hafa myrt búlgörsku sjónvarpsfréttakonuna Viktoriu Marinovu. Ríkissaksóknari Búlgaríu skýrði frá þessu miðvikudaginn 10. október. Búlgarska innanríkisráðuneytið sagði að sá grunaði héti Severin Krasimirov 21 árs Búlgari með sakaferil.
„Við höfum nægar sannanir til að tengja þennan einstakling við morðstaðinn,“ sagði Mladen Marinov innanríkisráðherra á blaðamannafundi. Hann taldi morðið ekki endilega tengjast störfum sjónvarpskonunnar.
Þýsk yfirvöld staðfestu miðvikudaginn 10. október að kvöldið áður hefðu þau handtekið Severin Krasimirov í bænum Stade í nágrenni Hamborgar og notað til þess evrópsku handtökuskipunina. Saksóknarar í Neðra-Saxlandi sögðu að þeir könnuðu nú forsendur þess að framselja manninn til Búlgaríu.
Fyrst var sagt frá handtöku mannsins á vefsíðu búlgarska blaðsins 168 Chasa að kvöldi þriðjudagsins. Sjónvarpsstöðin TVN þar sem Marinova vann sagði síðar að sá grunaði og Marinova hefðu ekki þekkst.
Önnur búlgörsk sjónvarpsstöð, BTV, fullyrti að lögreglan hefði fundið farsíma Marinovu í íbúð þess grunaða í bænum Ruse í norðurhluta Búlgaríu.
Viktoria Marinova (30 ára) vann að gerð sjónvarpsþátta sem snerust um spillingu meðal verktaka og misnotkun stjórnmálamanna á styrkjum frá Evrópusambandinu með milligöngu búlgarska ríkisins. Ræddi hún í fyrsta þættinum við rannsóknarblaðamenn frá Rúmeníu og Búlgaríu. Fleiri þætti gerði hún ekki því að henni var nauðgað og síðan misþyrmt í garði í bænum Ruse, þar fannst hún laugardaginn 6. október. Hafði hún verið að skokka þegar hún varð fyrir þessari hrottalegu banvænu árás.
Morðið á Marinovu hefur vakið reiði langt úr fyrir landamæri Búlgaríu. Stjórnvöld í höfuðborgum margra Evrópulanda krefjast þess að dauði hennar verði þaulrannsakaður.
Athygli er hins vegar vakin á því að Búlgaría er nr. 111 á lista 180 ríkja þegar litið er til fjölmiðlafrelsis og þannig í neðsta sæti í Evrópu.
Heitar umræður hafa auk þess vaknað enn á ný um öryggi blaðamanna í ESB-ríkjum. Blaðamenn í Slóvakíu og á Möltu hafa verið myrtir en í báðum tilvikum höfðu þeir fjallað um opinbera spillingu.
Daphne Caruana Galizia, blaðakona á Möltu, var drepin í október 2017 þegar bifreið hennar var sprengd í loft upp.
Jan Kuciak, blaðamaður í Slóvakíu og unnusta hans, Martina Kusnirova, voru skotin til bana í febrúar 2018.