Home / Fréttir / Moldovía: Rússavinur tapar forsetaembættinu

Moldovía: Rússavinur tapar forsetaembættinu

Maia Sandu, nýkjörinn forseti Moldovíu.
Maia Sandu, nýkjörinn forseti Moldovíu

Maia Sandu, fyrrverandi hagfræðingur hjá Alþjóðabankanum, vann góðan sigur í síðari umferð forsetakosninga í Moldóvíu sunnudaginn 15. nóvember þegar hún sigraði sitjandi forseta Igor Dodon sem er hallur undir Rússa.

Litið var á kosningarnar sem þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort Moldovía, fyrrverandi sovéskt lýðveldi, stefndi til frekari tengsla við ESB eða Rússland. Landið er á milli Úkraínu og ESB-ríkisins Rúmeníu.

Maia Sandu sagði á blaðamannafundi mánudaginn 16. nóvember að hún mundi beita sér fyrir „raunverulegu jafnvægi“ í samskiptum við Vestrið annars vegar og Rússa hins vegar.

„Við munum stofna til raunsærra viðræðna við öll ríki, þar með Úkraínu, Rúmeníu, ESB-ríki, Rússland og Bandaríkin,“ sagði hún.

Sandu hét því að stjórn sín mundi vinna gegn landlægri spillingu og stuðla að því að ná til fjárfesta í því skyni að bæta efnahag þjóðarinnar.

Hún höfðaði jafnt til eigin kjósenda og andstæðinga sinna og sagðist vilja bæta hag allra. Hún hvatti jafnframt til friðsamlegra stjórnarskipta án mótmæla eða andófs. Engum yrði liðið að grafa undan stöðugleika innan lands.

Vladimir Pútin Rússlandsforseti sem studdi Dodon opinberlega sendi tafarlaust heillaóskir til Sandu.

„Ég vænti þess að í störfum yðar sem þjóðhöfðingi stuðlið þér að uppbyggilegri þróun samskipta landa okkar tveggja,“ er haft eftir Pútin á vefsíðu embættis hans í Kreml.

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, óskaði Sandu einnig til hamingju með sigurinn og hét nánari samvinnu við hana.

„Í sigri yðar fellst skýr krafa um atlögu að spillingu og endurnýjaðri virðingu fyrir réttarríkinu – leið til blómlegrar framtíðar. ESB er tilbúið til að styðja Moldovíu,“ sagði von der Leyen á Twitter.

Sandu fékk 57,75% atkvæða en Dodon 42,25%. Kjörsókn var 52%. Sandu vann einnig fyrri umferð kosninganna sunnudaginn 1. nóvember án þess að fá yfir 50% atkvæða. Í kosningunum 2016 sigraði Dodon með 5 stiga mun en þá keppti hann einnig við Sandu.

Dodon sætir gagnrýni vegna lélegra viðbragða við COVID-19-faraldrinum. Íbúar Moldovíu, eins fátækasta ríkis Evrópu, eru 3,5 milljónir. Alls hafa 89.000 smitast af pestinni og rúmlega 2.000 dáið.

Aðskilnaðarsinnar hollir Rússum ráða Transdniester-héraði og nýtur það í raun sjálfstæðis með stuðningi Rússa frá því á tíunda áratugnum. Ráðamenn í Moskvu styðja aðskilnaðarsinnanna til að árétta að þeir líti á Moldovíu alla sem hluta af áhrifasvæði sínu. Þeim er mikið í mun að gefa ekkert eftir í því efni um þessar mundir þegar ólga er víða í fyrrverandi lýðveldum Sovétríkjanna.

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …