Home / Fréttir / Moldóva: Tekist á um samstarfs við Rússa eða ESB

Moldóva: Tekist á um samstarfs við Rússa eða ESB

 

 

Igor Dodon, forseti Morldóvu. og Vladimir Pútin, forseti Rússlands.
Igor Dodon, forseti Morldóvu. og Vladimir Pútin, forseti Rússlands.

Þingkosningar fóru fram í Moldóvu sunnudaginn 24. febrúar. Úrslitin kunn að leiða til þess að gert verði út um hvort fátæka austur-evrópska smáríkið hallar sér meira að Rússum eða Evrópusambandinu.

Sé tekið mið af skoðanakönnunum er líklegt að flest atkvæði falli Sósíalistaflokknum í skaut. Igor Dodon var leiðtogi hans þar til hann var kjörinn forseti landsins. Dodon og sósíalistar eru hallir undir Rússa en óvíst er að þeir hljóti hreinan meirihluta á þingi.

Andstæðinga Sósíalistaflokksins er að finna í ESB-vinveittu flokka bandalagi þar sem Lýðræðisflokkurinn hefur forystu en hann er aðalflokkurinn í meirihlutastjórn landsins. Hún vill að jafnvægi sé skapað milli tengsla við Rússa og Vestrið.

Kosningabaráttan hefur verið hörð. Þannig telur leiðtogi ACUM-flokkabandalagsins, andstæðings sósíalista og Lýðræðisflokksins, að eitrað hafi verið fyrir sér og öðrum í forystu bandalagsins. Þá hefur verið lokað á Facebook-síður sem taldar voru vopn í höndum þeirra sem stunda upplýsingafalsanir á netinu.

Tveimur dögum fyrir kjördag var skýrt frá því í Moskvu að hafin væri rannsókn á vegum yfirvalda þar vegna gruns um peningaþvætti sem tengdist leiðtoga Lýðræðisflokksins. Ýmsir stjórnmálaskýrendur sögðu þetta bein afskipti af kosningabaráttunni.

8082a39c-d00b-4281-bb51-c5a2f14451e8_w650_r0_s

Pavel Filip, forsætisráðherra Moldóvu úr Lýðræðisflokknum, er meðal þeirra sem hafa kvartað undan því sem mætti „kalla íhlutun“ Rússa í kosningabaráttuna.

Moldóva var áður eitt af lýðveldum Sovétríkjanna. Íbúar landsins eru 3,6 milljónir og þar hafa setið þrjár ríkisstjórnir síðan 2015 eftir að um 1 milljarður dollara – um 12% af vergri landsframleiðslu – hvarf úr bankakerfinu. Leiddi það til efnahagslegrar og pólitískrar krísu.

Dodon fer ekki leynt með stuðning sinn og samstarf við Vladimir Pútin Rússlandsforseta. Hann heimsækir Pútin í Moskvu. Í desember fór Dodon lofsamlegum orðum um „hreinskilni rússnesku forystusveitarinnar“ og „mikinn áhuga“ hennar á að stofna til strategísks samstarfs milli Rússa og Moldóva.

Skömmu fyrir kosningarnar sagði Dodon mikilvægt fyrir Moldóva að rækta góð tengsl við ráðamenn í Moskvu vegna þess hve mikil óvissa ríkti um framtíð ESB:

„Ég veit ekki hvað gerist með ESB eftir 10 til 15 ár,“ sagði hann við AP–fréttastofuna 21. febrúar.

Moldóvar fá 95% af jarðgasi sínu frá Rússum. Í Moldóvu hafa aðskilnaðarsinnar búið um sig í Transdniester-héraði og þar halda Rússar úti herafla. Þeir neita að kalla hann heim þótt Sameinuðu þjóðirnar hafi krafist brottflutnings hans.

Samskipti stjórnvalda í Moldóvu og Rússlandi versnuðu árið 2014 þegar Moldóvar rituðu undir samstarfssamning við ESB. Rússar settu þá innflutningsbann á vörur frá Moldóvu. Nú fer um 70% útflutnings Moldóvu til ESB-ríkja.

Maia Sandu, fyrrverandi menntamálaráðherra, fer fyrir flokkabandalaginu ACUM. Hún sakar ráðandi öfl í landinu um djúpstæða spillingu. Flokkabandalagið segist hvorki ætla að starfa með Lýðræðisflokknum né Sósíalistaflokknum.

Eftir að Sandu sagði að aðrir flokkar hefðu eitrað fyrir sér og nánum samstarfsmanni sínum hafnaði Lýðræðisflokkurinn fullyrðingunni sem staðleysu.

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …