Home / Fréttir / Moldóva: Forseti og ríkisstjórn deila um NATO-skrifstofu

Moldóva: Forseti og ríkisstjórn deila um NATO-skrifstofu

470f9bd7-c656-481d-af27-afeda1026038_mw800_s

Forseti Moldóvu, Igor Dodon, er hliðhollur Rússum og mótmælir áformum um að NATO komi á fót tengslaskrifstofu í landi sínu. Hann segir að þetta fyrrverandi sovéska lýðveldi eigi að standa utan við „geopólitísk átök“ milli ráðamanna í Washington og Moskvu.

Forsetinn lét þessi orð falla þriðjudaginn 26. september nokkrum vikum eftir að hann sakaði ríkisstjórn landsins sem hallar sér að vestrænum ríkisstjórnum um að reyna að „bæta her Moldóvu“ við bandalagið með því að senda sveit hermanna til æfinga undir stjórn NATO í nágrannaríkinu Úkraínu.

Dodon segir að fyrirhuguð skrifstofa NATO í Chisinau, höfuðborg Moldóvu, „muni ekki skapa frið“ í landinu og spilla fyrir tilraunum til að leysa deiluna vegna Transdniester-héraðs sem sagði sig úr lögum við Moldóvu.

„Við erum hlutlaust ríki. Hvers vegna þurfum við að leyfa skrifstofur hernaðarstofnana í Chisnau?“ spurði forsetinn fréttaritara RFE/RL í Moldóvu.

Ríkisstjórn Moldóvu sem vill nánari tengsl við Bandaríkin og ESB hefur skrifað undir samning við NATO um að bandalagið opni tengslaskrifstofuna í nóvember.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, hefur lýst fyrirhugaðri skrifstofu sem „lítilli sendiskrifstofu með borgaralegum starfsmönnum“. Ekki vaki fyrir NATO að hrófla við hlutleysi Moldóvu.

Dodon hefur verið forseti síðan í desember 2016. Forsetaembættið er að mestu valdalaust en staða Dodons er sterk að því leyti að hann var kjörinn í almennri kosningum. Hann varð fyrstur manna til að sigra í forsetakosningum síðan 1997.

Í rúma tvo áratugi hefur Moldóva verið meðal samstarfsríkja NATO. Hefur bandalagið veitt aðstoð við þjálfun hermanna landsins til þátttöku í alþjóðlegu friðargæslustarfi.

Dodon vill öflugri tengsl við Rússa. Fyrr í þessum mánuði hafði ríkisstjórnin að engu andmæli hans við að 57 hermenn Moldóvu færu til æfinga í Úkraínu undir stjórn NATO.

Rússar halda úti 2.000 manna herliði í Transdniester-héraði sem lýsti yfir sjálfstæði frá sovéska lýðveldinu Moldóvu árið 2000. Hélst aðskilnaðurinn þótt Moldóva hlyti sjálfstæði en ráðamenn í Transdniester eru hollir ráðamönnum í Moskvu.

Um 1.500 rússneskir hermenn gæta risavaxinna gamalla, sovéskra vopnabúra Rússa í Transdniester og um 500 rússneskir friðargæsluliðar halda uppi brothættu 25 ára gömlu vopnahléi sem gert var til að binda enda á hernaðarátök innan Moldóvu á sínum tíma.

 

 

 

Skoða einnig

Pútin hefur ekki tíma til kosningabaráttu í fjölmiðlum

Rússneska forsetakosningabaráttan hófst formlega laugardaginn 17. febrúar og þá staðfesti yfirkjörstjórnin og talsmaður Kremlverja ákvörðun …