Home / Fréttir / Mögnuð fordæming á fjöldamorðum Rússa í útjaðri Kyív

Mögnuð fordæming á fjöldamorðum Rússa í útjaðri Kyív

Götumynd frá Bucha þar sem fundist hafa fjöldagrafir

Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti sagði við bandarísku CBS-sjónvarpsstöðina sunnudaginn 3. apríl að Rússar efndu nú til „þjóðarmorðs“ með stríðinu í Úkraínu og ætluðu sér að „eyðileggja og útrýma“ fólki af meira en 100 þjóðernum sem byggi í Úkraínu.

Myndir sýna fjöldagrafir og lík á götum úti í bæjum í útjaðri Kyív, höfuðborgar Úkraínu. Eftirlifandi íbúar segja að við brottför sína úr bæjunum hafi rússneskir hermenn drepið saklaust fólk sem varð á vegi þeirra. Utanríkisráðherra Úkraínu segir að í bænum Bucha hafi verið gengið „af ásetningi“ til verks og framin fjöldamorð.

Liz Truss, utanríkisráðherra Breta, sagði í yfirlýsingu að sífellt bærust fleiri vitnisburðir um „viðbjóðslega verknaði“ Rússa í bæjunum Bucha og Irpin í útjaðri Kyív.

Hún sagði að rannsaka yrði sem „stríðsglæpi“ tilefnislausar árásir á saklausa almenna borgara í ólöglegri og óréttmætri innrás Rússa í Úkraínu. Það yrði ekki þolað að Rússar hylmdu yfir þátttöku sína í þessum grimmdarverkum með kaldhæðnislegum upplýsingafölsunum heldur yrði að sjá til þess að upplýst yrði um það sem Rússar hefðu raunverulega gert. Bretar ynnu að því með öðrum að safna sönnunum og veita Alþjóðasakamáladómstólnum (ICC) stuðning við glæparannsókn hans.

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði við CNN-sjónvarpsstöðina um hádegisbil sunnudaginn 3. apríl að myndir af almennum borgurum í Úkraínu sem hefðu verið fjötraðir og drepnir á götum bæjarins Bucha væru „roknahögg í magann“.

Hann sagði að nú þrengdi mjög að Rússum vegna efnahagsþvingananna. Ráðherrann taldi of snemmt að segja hvort rússnesku hersveitirnar sem hörfuðu frá Kyív gerðu það varanlega eða til að endurskipuleggja sig. Hins vegar hefðu Rússar nú þegar beðið „strategískan ósigur“ í Úkraínu.

Jean-Yves Le Drian, utanríkisráðherra Frakka, fordæmir „gífurlega misbeitingu“ rússneska hersins sem jafngilti stríðsglæpum. Frakkar mundu leggja Úkraínumönnum og Alþjóðasakamáladómstólnum (ICC) lið við að draga þá sem brytu alþjóðalög á þennan hátt fyrir dóm.

Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu, sagði á Twitter að það hefði verið ásetningur rússneskra hermanna að fremja fjöldamorð í Bucha. Hann hvatti til þess að enn yrði hert á efnahagsþvingunum gegn Rússum með því að banna kaup á orku af þeim, með hafnbanni á varning frá Rússlandi og allir rússneskir bankar yrðu aftengdir SWIFT-alþjóðagreiðslukerfinu.

Kuleba sagði: „Við erum enn að safna saman og leita að líkum en fjöldi þeirra skiptir nú þegar hundruðum. Lík liggja á götum úti.“

Frans páfi var á Möltu sunnudaginn 3. apríl og lýsti innrás Rússa í Úkraínu sem helgispjöllum. Hvatti hann til þess að beðið yrði fyrir friði og að endir yrði á mannlegum hörmungum í þjakaðri Úkraínu.

Annalena Baerbock, utanríkisráðherra Þýskalands, sakar Rússa um „stríðsglæpi“ það sýndu myndir frá á götunum í Bucha. Hún segir á Twitter að myndirnar þaðan séu „óbærilegar“ og „stjórnlaust ofbeldi“ Pútins „þurrkar út saklausar fjölskyldur og virðir engin mörk“. Það verði að kalla þá til ábyrgðar sem frömdu þessa glæpi. Þjóðverjar verði að „herða þvinganir“ og veita Úkraínumönnum enn meiri aðstoð til að verjast.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra segir á Twitter að það sé mikið áfall og sorglegt að fá hryllilegar frásagnir af fjöldamorðum á almennum borgurum í Bucha og í nágrenni Kyív. Saklausar fjölskyldur, þar á meðal börn, hafi af hrottaskap verið svipt framtíð sinni. Þessi stríði verði að ljúka. Þeir sem ábyrgðina beri verði að horfast í augu við réttvísina.

 

 

Skoða einnig

Málstofan „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ komin á Netið

Ánægjulegt að deila hér samantekt á nýlegu málþingi Varðbergs „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ sem …