Home / Fréttir / Mjaldur með rússneska gjörð við strönd Noregs

Mjaldur með rússneska gjörð við strönd Noregs

Mjaldurinn með rússnesku gjörðina.
Mjaldurinn með rússnesku gjörðina.

Norskir sjómenn fundu undan strönd Finnmerkur mjaldur sem bar á sér dularfulla gjörð. Mjaldurinn virtist taminn þegar hann synti á milli norsku bátanna í fyrri viku. Engu líkara var en hann nuddaði sér utan í bátana til að losa gjörðina af sér að sögn sjómanns sem ræddi við norska ríkisútvarpið, NRK.

Fór svo að einn sjómannanna stökk í sjóinn til að losa um gjörðina úr því að ekki tókst að gera það á annan hátt. Synti hvalurinn þá sína leið.

Norska Fiskistofan sagði síðar að á gjörðinni stæðu orðin: „Tæki St. Pétursborg“ og á henni væri festing fyrir myndavél. Fram kom að norski herinn hefði áhuga á að rannsaka málið.

Í norskum fjölmiðlum sagði að þessi mjaldur hefði oft sésr úti fyrir

Ingøy í Finnmörk þar sem hann synti í átt að mönnum og vildi ná sambandi við þá.

„Við vitum að Rússar hafa haft tamda mjaldra í haldi. Líklega hafa einhverjir þeirra sloppið. Þá leita þeir oft uppi báta,“ segir Audun Rikardsen, prófessor við Institutt for arktisk og marin biologi við háskókann í Tromsø, UiT.

Vísindamenn lýstu áhyggjum yfir því að taminn mjaldur kynni að eiga erfitt með að bjarga sér úti á reginhafi, hann kynni ekki að afla sér fæðu að sjálfsdáðum eftir að hafa verið fóðraður árum saman.

Í norskum fjölmiðlum er talað um njósnahval í fréttum um mjaldurinn. Þýska fréttastofan dw segir að ekki sé vitað um að Rússar beiti hvölum til hernaðar. Hitt sé ljóst að Sovétmenn hafi litið á höfrunga sem hluta af herafla sínum. Opinber rússnesk útboðsgögn frá árinu 2016 eru sögð sýna að herinn hafi viljað kaupa fimm vel tennta höfrunga.

 

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …