
Öfgamaðurinn Philip Manshaus (21 árs) sem gerði árás á mosku í Bærum við Osló í Noregi laugardaginn 10. ágúst er sagður hafa verið virkur félagi í svonefndum chan-nethópi fyrir árásina. Hann virðist meðal annars hafa fengið hugmyndina að árásinni eftir að hafa fylgst með hryðjuverkinu í Christchurch á Nýja-Sjálandi í mars 2019.
Af færslu á hópinn Endchan sem skráð er af Philip Manshaus segir meðal annars að grunaði hryðjuverkamaðurinn Philip Manshaus hafi verið „valinn af heilögum Tarrant“ – þar er vísað til Brentons Tarrants (28 ára) varð 51 að bana í árás á tvær moskur á Nýja-Sjálandi.
Netfærslur Philips Manshaus er meðal þess sem norska lögreglan rannsakar. Það hefur meðal annars komið fram að hann hafði hugsað sér að senda myndir beint á netið af því sem hann gerði eins og ódæðismaðurinn í Christchurch gerði. Tæknin brást hins vegat Manshaus.
Illvirkjarnir að baki fjöldamorðunum í Christchurch í mars, moskuárásinni utan við San Diego í maí og El Paso-árásinni nú í ágúst birtu fyrirfram færslur um árásir sínar á 8chan. Fredrick Brennan sem stofnaði 8chan árið 2013 sagði nýlega við The New York Times að hann vildi loka hópnum.
Philips kom fyrir dómara í Osló mánudaginn 12. ágúst. Hann er ákærður fyrir hryðjuverk og fyrir að hafa myrt 17 ára stjúpsystur sína. Sjálfur segist hann saklaus og neitar að ræða við lögreglu.
Á Instragram-síðu undir nafni Manshaus eru tvær myndir, önnur af honum og hin af fjöldamorðingjanum Anders Behring Breivik.
Vitni segja að Manshaus hafi verið með hjálm og í einkennisbúningi þegar hann réðst á moskuna. Tveir gestir moskunnar yfirbuguðu Manshaus.
Norska öryggislögreglan, PST, staðfestir að hafa fengið ábendinu um öfgatilhneigingar Manshaus fyrir einu ári. Lögreglan taldi hann þó ekki undirbúa hryðjuverk. Á blaðamannafundi PST mánudaginn 12. ágúst var upplýst að fyrr í sumar hefði öryggislögreglan sent frá sér nýtt mat á hættunni af hægri öfgamönnum í Noregi. Hættumatið breyttist ekki en grunnurinn undir því „skerptist“. Þar var vísað til stöðunnar á alþjóðavettvangi eftir nokkrar stórárásir hægri öfgamanna og áhrif hennar á norska hægriöfgamenn.