Home / Fréttir / Minsk: Mótmæli gegn frekari samruna við Rússland

Minsk: Mótmæli gegn frekari samruna við Rússland

 

Frá mótmælafundi í Minsk.
Frá mótmælafundi í Minsk.

Efnt var til útifundar annan daginn í röð í Minsk, höfuðborg Hvíta-Rússlands, laugardaginn 21. desember. Mótmælt var að auka samruna Hvíta-Rússlands og Rússlands.

Talið er að um 1.500 manns hafi komið saman í Minsk föstudaginn 20. desember til að vara við frekari samruna ríkjanna. Þann sama dag hittust Vladimir Pútin Rússlandsforseti og Aljaksandr Lukashenka, forseti Hvíta-Rússlands, á fundi í St. Pétursborg í Rússlandi til að leggja á ráðin um ýmsar leiðir til að tengja löndin enn frekar.

Í þessum mánuði hefur nú alls verið efnt til þriggja mótmæla af þessu tagi í Minsk þrátt fyrir viðvaranir lögreglu, fangelsun aðgerðarsinna og höfnun yfirvalda á beiðni skipuleggjenda um að fá að mótmæla.

Hvorki 20. né 21. desember greip lögreglan þó til aðgerða gegn mótmælendum. Engir aðgerðarsinnar voru teknir höndum.

Mótmælendur gengu frá Októbertorgi að Sjálfstæðistorgi í Minsk undir rauðum borðum á hvítum feldi – bannfærðum fána sjálfstæðs lýðveldis Hvíta-Rússlands. Auk þess blöktu fánar Evrópuráðsins og Evrópusambandsins. Þá var mótmælaspjöldum með hvatningarorðum gegn samruna við Rússland haldið á lofti.

Mótmælendur hrópuðu: Sjálfstæði! og Lengi lifi Hvíta Rússland!.

Lukashenka og Pútín tókst ekki að ná samkomulagi um þrjú skjöl af 31 sem þeir ræddu og marka leiðina til frekari samruna. Erfiðast er að leysa ágreining um gas, olíu og skatta.

Forsetarnir hittust nú að nýju eftir að þeim tókst ekki að ná samkomulagi í rússnesku Svartahafsborginni Sotsji 7. desember 2019.

Þeir höfðu vonað að komast að samkomulagi um framtíðarsamvinnu í ár þegar minnst er að 20 ár eru liðin frá því að sambandssamningur ríkjanna var undirritaður árið 1999. Samningurinn leggur grunn að viðræðum forsetanna nú, þótt hann sé lítið annað en orð á blaði. Hvað sem því líður eru ríkin nánir bandamenn og sameiginleg landamæri þeirra eru opin innan ramma tollasasamstarfs.

Stjórnvöld í Minsk eru háð ódýrri olíu frá Rússlandi og árlegum styrkjum sem nema um 5 milljörðum dollara til að borga með úreltu efnahagskerfi landsins að sovéskri fyrirmynd. Ríkið hefur nær allt efnahags- og atvinnulífið á eigin hendi og setur blómlegum upplýsingatækni iðnaði landsins skorður.

Óttinn við yfirgang Rússa hefur vaxið í Hvíta-Rússlandi síðan þeir brutu alþjóðalög og innlimuðu Krímskaga í mars 2014. Um sama leyti hófu Rússar skipulagðan stuðning við aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu. Meira en 13.000 manns hafa fallið í átökunum.

Efnt var til mótmæla í Minsk vegna fundarins í Sotsjí 7. desember. Lögreglan handtók nokkra aðgerðarsinna þá og voru þeir dæmdir í allt að 15 daga fangelsi sem átti að duga fram yfir mótmælin 20. og 21. desember.

Fyrir einum mánuði, 17. nóvember, fóru fram þingkosningar í Hvíta-Rússlandi þar sem enginn stjórnarandstæðingur náði kjöri í neðri deild þingsins.

Af hálfu Öryggisstofnunar Evrópu (ÖSE) var haldið úti eftirlitsmönnum með þingkosningunum í Hvíta-Rússlandi sem sögðu að kosningarnar stæðust ekki lýðræðislegar kröfur.

Sergei Lebedev, yfirmaður eftirlitsnefndar á vegum Samveldis sjálfstæðra lýðvelda, samtaka undir stjórn Rússa með aðild nokkurra fyrrverandi sovétlýðvelda, sagði á hinn bóginn að kosningarnar hefðu verið „frjálsar, lýðræðislegar og í samræmi við stjórnarskrá landsins“.

 

Heimild: RFE/RL’s Belarus Service

 

 

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …