Home / Fréttir / Minningardagur fórnarlamba pólitískra ofsókna – 23. ágúst

Minningardagur fórnarlamba pólitískra ofsókna – 23. ágúst

unnamed

Fyrir stuttu spratt upp mikil umræða um öfgastefnur í stjórnmálum í kjölfar þess að fylgismenn „alt-right“ stóðu fyrir fundi í Charlottesville í Bandaríkjunum.  Hann var haldinn til að mótmæla því að taka átti niður styttu af  Robert E. Lee hershöfðingja sem barðist fyrir Suðurríkin í borgarastríðinu þar í landi (1861-1865) en í kjölfar þess að kynþáttahatari skaut níu þeldökka menn til bana í kirkju í Charleston árið 2015 hefur skipulega verið reynt að fækka táknmyndum Suðurríkjanna í bandarísku samfélagi.  Þátttaka öfgahópa á borð við nýnasista og Klu Klux Klan í mótmælunum varð til þess að allt fór í bál og brand og þegar upp var staðið lá einn í valnum og margir voru sárir.  Það er því ekki skrítið að menn hafi farið að ræða um þá hættu sem getur stafað af þeim sem boða öfgafullar stjórnmálaskoðanir en sú umræða komst þó aldrei verulega á flug því fljótlega beindust sjónir flestra að viðbrögðum Donalds Trumps Bandaríkjaforseta við harmleiknum í Charlottesville.  Þó það sé eðlilegt að fólk fylgist með gjörðum hans þá þarf einnig af og til að rifja upp þann ómælda skaða sem pólitískar öfga- og alræðisstefnur hafa valdið í gegnum tíðina í þeirri von að okkur takist að læra eitthvað af sögunni.

Því er rétt að vekja athygli á að í dag, 23. ágúst, er alþjóðlegur minningardagur um fórnarlömb alræðisstefna.  Sögu hans má rekja aftur til níunda áratugar síðustu aldar þegar pólitískir flóttamenn frá löndunum fyrir austan járntjald stóðu fyrir „Black Ribbon Day“ (Degi svarta borðans) samkomum í Norður – Ameríku.  Í kjölfarið hófust mótmæli í Eystrasaltsríkjunum sem náðu hámarki árið 1989 þegar mótmælendur mynduðu hina svokölluðu Eystrasaltskeðju sem náði milli höfuðborga ríkjanna þriggja.  Næsti áfangi í þessari sögu hófst þegar Evrópusambandið stækkaði til austurs en í kjölfarið hófu hin nýju aðildarríki baráttu fyrir því að dagurinn í dag yrði gerður að minningardegi fórnarlamba alræðisstjórna.  Ályktun um þetta var samþykkt á Evrópuþinginu árið 2008 og frá 2009 hefur þeirra verið minnst 23. ágúst í aðildarríkjum sambandsins.  Evrópuríki utan ESB ættu ekki  heldur að gleyma þessum degi enda hefur Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu hvatt aðildarríkin til að hafa daginn í heiðri.  Minningarathafnir eru einnig haldnar í nokkrum löndum utan Evrópu  undir heitinu „Black Ribbon Day“.

Dagurinn í dag var valinn vegna þess að þó að á þessum degi beri að minnast allra þeirra sem hafa lent í klónum á alræðisstjórnum er kastljósinu einkum beint að fórnarlömbum nasista og kommúnista.  Þó fylgismenn þessara stefna hafi verið svarnir óvinir þá kom það ekki í veg fyrir að leiðtogar þeirra gætu unnið saman að því að skipta Austur-Evrópu á milli sín árið 1939.  Atburðarásin sem leiddi til samvinnu Þriðja ríkisins og Sovétríkjanna hófst þá um sumarið er fulltrúar þeirra hittust á óformlegum fundum.  Viðræðurnar gengu svo vel að í ágúst sendi Hitler utanríkisráðherra sinn til Moskvu og þann 23. þess mánaðar skrifaði hann ásamt utanríkisráðherra Sovétríkjanna undir griðasáttmála ríkjanna.  Þar með var leiðin greið fyrir Þjóðverja að ráðast inn í Pólland en sú innrás markar upphaf seinni heimsstyrjaldarinnar (1939-1945).

Höfundur:

Kristinn Valdimarsson

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …