Home / Fréttir / Minningarathöfn bönnuð í Hong Kong í fyrsta sinn í 30 ár

Minningarathöfn bönnuð í Hong Kong í fyrsta sinn í 30 ár

Hong Kong hefur lengi logað vegna mótmæla.
Hong Kong hefur lengi logað vegna mótmæla.

Lögreglan í Hong Kong hefur bannað fólki að koma saman 4. júní til að minnast atburðanna á Torgi hins himneska friðar þann dag árið 1989 þegar ráðist var með skotvopnum gegn mannfjölda sem krafðist lýðræðis í Kína.

Þetta er í fyrsta sinn í 30 ár sem bann er sett við minningarathöfn í Hong Kong af þessu tilefni. Nú bera yfirvöld því við að þau vilji ekki stofna heilsu fólks í hættu. Banna verði fjöldasamkomur til að verjast COVID-19-faraldrinum.

Breska ríkisútvarpið, BBC, segir að í Hong Kong óttist menn að bannið nú verði varanlegt vegna þess að kínverska stjórnin hafi sett lög um að refsivert sé að vega að valdi hennar í borgríkinu sem búið hefur við þröngt sjálfstæði frá því að Bretar afhentu Kínastjórn yfirráðin þar 1. júlí 1997.

Fram til þessa hefur aðeins mátt minnast blóðbaðsins á Torgi hins himneska friðar í Hong Kong og Macau innan Kína.

Lee Cheuk Yan, formaður Bandalags Hong Kong til stuðnings lýðræðislegum föðurlandshreyfingum Kína, sagði „óskynsamlegt“ að banna minningarsamkomuna í ár og það jafngilti í raun að ekki væri unnt að tala um Hong Kong undir formerkjunum „eitt land, tvö kerfi“.

Venjulega tekur fjöldi manns þátt í minningarathöfninni í Hong Kong. Í fyrra töldu skipuleggjendur hennar að 180.000 manns hefðu komið saman í Viktoríu-garðinum í borginni. Lögregla sagði á hinn bóginn að fjöldinn hefði verið innan við 40.000 manns.

Stuðningsmenn lýðræðisumbóta lögðu Torg hins himneska friðar undir sig í apríl 1989 og þá hófust mestu pólitísku mótmæli gegn stjórn kommúnista í Kína. Mótmælin stóðu í sex vikur og er talið að um milljón manns hafi tekið þátt í þeim.

Að kvöldi 3. júní voru skriðdrekar sendir gegn mótmælendum og hermenn gripu til skotvopna gegn óvopnuðum mannfjöldanum. Margir dóu eða særðust.

Eftir hildarleikinn fullyrtu kínversk stjórnvöld að enginn hefði verið skotinn til bana á mótmælatorginu sjálfu. Aðrir segja að nokkur þúsund manns hafi týnt lífi vegna aðgerðanna 4. júní 1989. Engar opinberar tölur liggja fyrir um mannfallið.

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …