Home / Fréttir / Miklar sviptingar í þýskum stjórnmálum – Gabriel í Washington

Miklar sviptingar í þýskum stjórnmálum – Gabriel í Washington

Angela Merkel og Martin Schulz.
Angela Merkel og Martin Schulz.

Miklar sviptingar eru í þýskum stjórnmálum um þessar mundir ef marka má skoðanakannanir. Föstudaginn 27. janúar ákvað Sigmar Gabriel, formaður Jafnaðarmannaflokksins (SPD) að víkja sæti sem flokksleiðtogi fyrir Martin Schulz, fyrrverandi forseta ESB-þingsins, auk þess sem Gabriel tók við embætti utanríkisráðherra í stað Frank-Walters Steinmeiers sem verður næsti forseti Þýskalands.

Niðurstöður skoðanakannana sem birtust fimmtudaginn 2. febrúar sýna að Schulz nýtur 16% meira fylgis en kristilegi demókratinn (CDU) Angela Merkel kanslari. Schulz verður kanslaraefni SPD í þingkosningunum í september 2017. Meirihluti Þjóðverja vill hann nú sem kanslara frekar en Merkel.

Niðurstöðurnar sem sjónvarpsstöðin ARD birti sýnir að Schulz fengi 50% en Merkel 34% atkvæða sem kanslari. Kanslari er þó ekki kosinn beint í þingkosningunum heldur flokkar sem síðan mynda stjórn. Stuðningur við Schulz hefur aukist um 9 stig frá könnun í lok janúar, fylgi Merkel minnkar um 7 stig.

Sigmar Gabriel kom til Washington fimmtudaginn 2. febrúar og varð fyrstur utanríkisráðherra til að hitta Rex Tillerson, nýjan utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sem var settur í embætti þann dag.

Í Frankfurter Allgemeine Zeitung segir föstudaginn 3. febrúar að Bandaríkjamenn hafi boðað að Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, og James Mattis varnarmálaráðherra verði þátttakendur í árlegri öryggisráðstefnu í München sem í ár verður dagana 17. til 19. febrúar. Þá sé hugsanlegt að Rex Tillerson utanríkisráðherra verði þar einnig þótt ekki hafi tíðkast að bandaríski utanríkisráðherrann sæki ráðstefnuna geri varaforsetinn það.

Þýska blaðið kallar ráðstefnuna Davos der Sicherheitspolitik – Davos öryggismálanna – og vísar til árlegrar ráðstefnu um efnahagsmál í svissneska fjallabænum Davos. Sumir kalla Arctic Circle – Hringborð norðursins í Hörpu – Davos norðurslóða.

Í The New York Times segir föstudaginn 3. febrúar að Donald Trump Bandaríkjaforseti standi vörð um meginstoðir utanríkisstefnu Baracks Obama, forvera síns, þrátt fyrir að hafa lofað gjörbreyttri stefnu. Þannig sé varað við því að Ísraelar stækki landnemabyggðir sínar, þess sé krafist að Rússar hverfi frá Krím og Írönum hótað refsiaðgerðum vegna tilrauna þeirra með langdrægar eldflaugar.

Skoða einnig

Rússar ráðast á barnaspítala í Kyiv

Rússar gerðu flugskeytaárás á helsta barnaspítalann í Kyiv mánudaginn 8. júlí. Að minnsta kosti 22 …