Home / Fréttir / Miklar NATO-heræfingar á norðurslóðum fram á vor

Miklar NATO-heræfingar á norðurslóðum fram á vor

Bláa línan er dregin frá Alta í Finnmörku Noregs til Hetta í finnska hluta Lapplands. Æft verður undir merkjum NATO fyrir vestan þessa línu.

Miklar heræfingar fara fram á Norður-Atlantshafi og í norðurhluta Noregs, Svíþjóðar og Finnlands um þessar mundir og fram á vor. Í löndunum þremur ber hæst æfinguna Nordic Response sem stendur yfir frá 3. til 15. mars. Meira en 20.000 hermenn frá 13 ríkjum koma þá til æfinga í löndunum þremur.

Nordic Response tengist heildaræfingu NATO, Steadfast Defender 2024, sem hófst mánudaginn 22. janúar, og landgönguliðsæfingu undir stjórn Breta, Joint Warrior.

Æfingin er reist á því að sett er á svið atvik sem verður til þess að 5. grein Atlantshafssáttmálans er virkjuð vegna árásar öflugs nágrannaríkis á eitt bandalagslandanna.

Fyrsta stig Steadfast Defender er að liðsstyrkur er fluttur frá Norður-Ameríku til Evrópu.

Síðan hefst Joint Warrior 24. febrúar frá Bretlandi og miðast sá þáttur við að tryggja samgönguleiðir á Norðaustur-Atlantshafi og landgöngu á strönd Noregs.

Þegar kemur að Nordic Response beinast kraftar annars vegar að því að taka á móti liðsauka af hafi á sama tíma og gerð er innrás í Finnmörku í Norður-Noregi.

Á liðnu sumri voru nýjar svæðisbundnar varnaráætlanir samþykktar í NATO og eru þessar æfingar liður í að láta reyna á þær í framkvæmd.

Í Joint Warrior og Norfic Response eru æfðar svæðisáætlanir sem ná til Atlantshafs og Evrópuhluta norðurslóða (e. European Arctic) Þar fer sameiginlega NATO-herstjórnin í Norfolk með forræði á æfingunni. Herir norrænu ríkjanna allra og Ísland falla undir JFC Norfolk-herstjórn NATO.

Eins og nafnið Nordic Response gefur til kynna snýst æfingin að verulegu leyti um að samhæfa varnir norrænu ríkjanna. Sameiginleg aðgerðastjórn flugherja landanna verður í Bodø í Noregi þar sem yfirmenn norrænu flugherjanna munu stilla saman strengi.

Þáttur sjóherja í æfingunum skiptir ekki síður miklu en flug- og landherjanna. Til að flytja megi liðsafla bandalagsþjóðanna sjóleiðis til Norður-Noregs verður að hafa full yfirráð á Norðursjó og Noregshafi auk þess að halda herflota í skefjum á Barentshafi. Þá verður liðsafli fluttur á landi og í lofti frá Finnlandi og Svíþjóð til Norður-Noregs.

Sjóherinn æfir á Norður-Atlantshafi og Noregshafi. Landgönguæfingar verða í Troms og Finnmörku allt til Hammerfest í Noregi. Landhersæfingar frá Alta í Finnmörku til Hetta í finnska hluta Lapplands. Þá verða flugheræfingar í norðurhluta landanna þriggja, Noregs, Svíþjóðar og Finnlands (þ. e. á Nordkallotten e. Cap of the North).

Fram á vor verða fleiri norðuræfingar:

Northern Viking: Æfing í apríl á og umhverfis Ísland. Þar verður lögð áhersla á að tryggja flutningaleiðir á sjó og í lofti til Norður-Evrópu. Flotastjórn Bandaríkjanna í Evrópu fer með forystu í æfingunni.

Dynamic Mongoose: Kafbátavarnaæfing á norðurslóðum í apríl-maí undir forystu flotastjórnar NATO.

Northern Forest: Landhersæfing undir forystu Finna í Rovajärvi í Norður- Finnlandi. Samkvæmt varnarsamningi Bandaríkjamanna og Finna er Rovajärvi sameiginlegt æfingasvæði landanna.

Heimild: High North News

 

Skoða einnig

Málstofan „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ komin á Netið

Ánægjulegt að deila hér samantekt á nýlegu málþingi Varðbergs „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ sem …