
Rússneska varnarmálaráðuneytið sendi frá sér tilkynningu um hádegisbil þriðjudaginn 9. maí að síðdegis þann sama dag mundi 20 skipa flotadeild, herskip og kafbátar, sigla frá Kóla-skaga út á Barentshaf til æfinga. Verða skipin við æfingarnar fram til loka maí.
Þá taka flugvélar og þyrlur frá Norðurflotanum og rússneska flughernum þátt í æfingunum.
Rússar hefja þessar æfingar sínar á sama tíma og herskip frá NAYO-ríkjunum Noregi, Þýskalandi og Bandaríkjunum hefja æfinguna EASTLANT 17 á hafinu fyrir utan fylkin Troms og Finnmörku í Norður-Noregi.
Auk norskra og þýskra kafbáta taka herskip þátt í NATO-æfingunni sem stendur næstu vikur.
Þegar um 8.000 hermenn tóku þátt í landæfingu í Noregi í mars hóf rússneski Norðurflotinn einnig fyrirvaralaust að æfa sig á Barentshafi. Breskir og bandarískir hermenn tóku þátt í norsku æfingunni.
Í tilkynningum um flotaæfingarnar nú er ekki greint nákvæmlega frá hvar þær verða. Rússneski flotinn verður „á Barentshafi“ og floti NATO-ríkjanna „á hafinu undan strönd Norður-Noregs“.
Rússar og Norðmenn eiga samvinnu á norðlægum hafsvæðum þótt þjóðirnar hafi fjarlægst í hernaðarmálum. Samvinna er um stjórn fiskveiða og leit og björgun með þátttöku strandgæsla landanna.
Miðvikudaginn 31. maí verður efnt til norsk-rússneskrar æfingar sem snýr að gæslu öryggis sjófarenda við strendur, samvinnu strandgæsla, hafnaryfirvalda og umhverfisstofnana. Tekið er mið af hafsvæðinu undan strönd Kóla-skagans. Æfingin snýst um björgun fólks úr sjávarháska og varnir gegn olíumengun.
Heimild: Barents Observer.