Home / Fréttir / Miklar flotaæfingar í norðurhöfum í maí

Miklar flotaæfingar í norðurhöfum í maí

Herskip úr rússneska Norðurflotanum.
Herskip úr rússneska Norðurflotanum.

Rússneska varnarmálaráðuneytið sendi frá sér tilkynningu um hádegisbil þriðjudaginn 9. maí að síðdegis þann sama dag mundi 20 skipa flotadeild, herskip og kafbátar, sigla frá Kóla-skaga út á Barentshaf til æfinga. Verða skipin við æfingarnar fram til loka maí.

Þá taka flugvélar og þyrlur frá Norðurflotanum og rússneska flughernum þátt í æfingunum.

Rússar hefja þessar æfingar sínar á sama tíma og herskip frá NAYO-ríkjunum Noregi, Þýskalandi og Bandaríkjunum hefja æfinguna EASTLANT 17 á hafinu fyrir utan fylkin Troms og Finnmörku í Norður-Noregi.

Auk norskra og þýskra kafbáta taka herskip þátt í NATO-æfingunni sem stendur næstu vikur.

Þegar um 8.000 hermenn tóku þátt í landæfingu í Noregi í mars hóf rússneski Norðurflotinn einnig fyrirvaralaust að æfa sig á Barentshafi. Breskir og bandarískir hermenn tóku þátt í norsku æfingunni.

Í tilkynningum um flotaæfingarnar nú er ekki greint nákvæmlega frá hvar þær verða. Rússneski flotinn verður „á Barentshafi“ og floti NATO-ríkjanna „á hafinu undan strönd Norður-Noregs“.

Rússar og Norðmenn eiga samvinnu á norðlægum hafsvæðum þótt þjóðirnar hafi fjarlægst í hernaðarmálum. Samvinna er um stjórn fiskveiða og leit og björgun með þátttöku strandgæsla landanna.

Miðvikudaginn 31. maí verður efnt til norsk-rússneskrar æfingar sem snýr að gæslu öryggis sjófarenda við strendur, samvinnu strandgæsla, hafnaryfirvalda og umhverfisstofnana. Tekið er mið af hafsvæðinu undan strönd Kóla-skagans. Æfingin snýst um björgun fólks úr sjávarháska og varnir gegn olíumengun.

 

Heimild: Barents Observer.

Skoða einnig

Spenna í Íran á eins ár minningardegi Amini sem lögregla myrti vegna skorts á höfuðslæðu

Íranir heima og erlendis minnast þess laugardaginn 16. september að eitt ár er liðið frá …