
Höfundur: Kristinn Valdimarsson
Búast má við hitafundi þegar leiðtogar Atlantshafsbandalagsríkjanna hittast í Brussel 11. – 12. júlí næstkomandi. Þeir sem spá þessu, líkt og tímaritið The Economist sem hér verður vísað í, hafa aðallega áhyggjur af því hvað Donald Trump Bandaríkjaforseti geri á fundinum. Skemmst er að minnast leiðtogafundar G7 efnahagsveldanna í Kanada í síðasta mánuði. Hann gekk ekki sem skildi og kom það aðallega til vegna deilu Trumps við aðra leiðtoga um verndartolla.
Í Brussel er líklegt að deilt verði um fjárframlög Evrópuríkja til NATO. Trump hefur lengi haldið því fram að útgjöld margra þeirra til varnarmála séu of lág og nýjasta útspil hans var að senda bréf til leiðtoga nokkurra NATO ríkja þar sem hann kvartaði yfir þessu. Bréfið sem hann sendi Angelu Merkel kanslara Þýskalands mun hafa verið sérstaklega harðort. Ekki bætir úr skák að Bandaríkin og bandamenn þeirra greinir á um ýmis önnur mál svo sem eins og kjarnorkusamninginn við Írani og afstöðuna til Ísraels. Svo má heldur ekki gleyma því að Trump virðist ekkert afar umhugað um fimmtu grein Atlantshafssáttmálans sem er lykilatriði í NATO samstarfinu en samkvæmt henni telst árás á eitt ríki Atlantshafsbandalagsins árás á þau öll.
Ekki má einblína á vandamálin
Þó ýmis óveðursský séu við sjóndeildarhringinn ber að varast að draga upp of dökka mynd af framtíð Atlanshafsbandalagsins. Í fyrsta lagi þá er bandalagið að ýta úr vör ýmsum stórum verkefnum sem sýna að aðildarríkin geta unnið saman þegar á þarf að halda. Þannig stefnir bandalagið á að efla viðbragðsgetu herafla þess fyrir árið 2020 til að vera betur í stakk búið til að takast á við ógnina sem starfar af Rússum. Á ensku kallast áætlunin “Four 30s” og er þá verið að vísa í að árið 2020 á bandalagið að geta flutt 30 herfylki, 30 flugsveitir og 30 herskip á hættusvæði innan 30 daga. Einnig er bandalagið að taka tvær nýjar herstjórnarmiðstöðvar í gagnið. Ný flotastjórn fyrir Atlantshafið verður sett á laggirnar í Norfolk í Bandaríkjunum og í Ulm í Þýskalandi verður komið á fót stjórnstöð sem á að sjá til þess að herafli bandalagsins komist auðveldlega á þá staði þar sem þörf er fyrir hann (e. logistics). Svo bendir margt til þess að Makedóníu verði boðin aðild að bandalaginu nú þegar deila þeirra og Grikkja um hvað Makedónía á að heita (en einn frægasti “Grikki” sögunnar, Alexander mikli var frá Makedóníu og hérað í Grikklandi ber einnig það nafn) virðist leyst.
Því má ekki heldur gleyma að á þeim tæplega sjötíu árum sem liðin eru frá því Atlantshafssáttmálinn var undirritaður í Washington hafa aðildarríki NATO oft deilt sín á milli. Alvarlegar deilur voru til að mynda um Súez- og síðara Flóastíðið og árið 1967 dró Charles De Gaulle Frakka út úr herstjórnarkerfi NATO (þeir skráðu sig ekki aftur til leiks fyrr en 2009). Bandalagið lifir samt ennþá tiltölulega góðu lífi. Hvað varðar síðan fundinn nú í vikunni þarf líka að hafa í huga að Trump er ólíkindatól og vel getur verið að hann hegði sér líkt og Bandaríkjaforseta sæmir í Brussel.
Uppskrift að árangri
Stuðningsmenn Atlantshafsbandalagsins ættu því ekki að vera of bölsýnir en þeir þurfa þó að hafa í huga að framtíð bandalagsins er ekkert sjálfgefin. Velunnarar bandalagsins þurfa að berjast fyrir tilvist þess vilji þeir að það haldi áfram að tryggja frið og öryggi á Norður – Atlantshafssvæðinu líkt og það hefur gert frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar. The Economist bendir á nokkra þætti sem stuðningsmenn NATO þurfa að huga að.
Í fyrsta lagi þá ættu Evrópuríki að reyna að koma í veg fyrir að hugmyndum um öryggi og viðskipti sé blandað saman líkt og Trump er gjarn á að gera. Slíkt flækir bara viðræður innan NATO. Evrópuríkin verða síðan að horfast í augu við þá staðreynd að gagnrýni Trumps hvað varðar útgjöld þeirra til varnarmála á rétt á sér. Hann orðar hlutina öðruvísi en aðrir en í raun er hér um að ræða gamalt vandamál innan Atlantshafsbandalagsins sem ýmsir, þ.á m. Bandaríkjaforsetar, hafa áður kvartað yfir. Ríki Evrópu geta m.a. brugðist við þessu ójafnvægi með því að styrkja sameiginlegar varnir sínar. Brottför Breta úr Evrópusambandinu flækir málið og því er nýleg hugmynd Frakklandsforseta um varnarsveitir nokkurra Evrópuríkja, þ.á m. Breta kærkomin (á ensku kallast þessi hugmynd “European Intervention Initiative). Að lokum nefnir The Economist að stuðningsmenn NATO þurfi að vera duglegri að koma markmiðum bandalagsins á framfæri í aðildarríkjunum. Saga Evrópu er öðrum þræði saga styrjalda sem hafa leitt til ómældra hörmunga fyrir íbúa álfunnar. Þó tvær kynslóðir hafi nú alist upp í Evrópu án stríðsátaka í álfunni þá þýðir það alls ekki að svo verði um alla framtíð. Samvinna ríkja Norður – Ameríku og Evrópu hefur líka verið mikil lyftistöng fyrir þessi ríki. Þetta eru sterk rök fyrir áframhaldandi starfsemi NATO og takist velunnurum Atlantshafsbandalagsins að sannfæra Donald Trump og aðra sem hafa litla trú á því um gildi þeirra er framtíð bandalagsins björt.