
Rússar endurnýja nú allar þrjár stoðir kjarnorkuherafla síns: langdrægar sprengjuflugvélar, landflaugar og langdrægu kjarnorkukafbátana. Þessum kafbátum fjölgar í rússneska Norðurflotanum og þar með eykst hernaðarlegt og strategískt mikilvægi hans segir á vefsíðunni Barents Observer (BO) föstudaginn 3. mars.
Fyrsti uppfærði kafbáturinn af Borei-gerð, Knjaz Vladimir, verður settur á flot síðar á þessu ári að sögn rússnesku fréttastofunnar TASS. Nú þegar eru þrír kafbátar af þessari gerð í notkun, hver þeirra ber 16 eldflaugar, næstu fimm Borei-kafbátar verða hver með 20 Bulava-langdrægar eldflaugar. Sex kjarnaoddar eru á hverri flaug.
Frá því að sovéski flotinn hélt úti risavöxnum Typhoon-kafbátum á norðurslóðum í kalda stríðinu hefur rússneski flotinn ekki átt kafbáta sem hver um sig getur borið 120 kjarnaodda. Hver bátur er 170 m langur, 14.720 tonn, knúinn áfram af einum kjarnakljúfi með 107 manna áhöfn.
Í nýrri bandarískri skýrslu segir að Rússar ætli hugsanlega að smíða fleiri en átta kafbáta af Borei-gerð og eignast alls 12 báta og eiga þannig jafnmarga langdræga eldflaugakafbáta (SSBN-báta) og Bandaríkjamenn.
Verði Borei-kafbátunum fjölgað um fjóra jafngildir það 480 fleiri kjarnaoddum í rússneska flotanum. Sé gengið að því vísu að Bandaríkjamenn og Rússar virði nýja START-samninginn um takmörkun langdrægra kjarnorkuvopna leiðir þetta til þess að mikilvægi langdrægu kjarnorkukafbátanna eykst og þeir skipta andstæðinga Rússa meira máli en áður hefur verið.
Í nýja START-samningnum segir að 5. febrúar 2018 megi hvort ríki eiga 1.550 kjarnaodda.
Þegar fram líða stundir koma Borei-bátarnir í stað Delta-III bátanna (í Kyrrahafsflotanum) og Delta-IV (í Norðurflotanum).
Um borð í átta Borei-bátum verða alls allt að 888 kjarnaoddar; þrír með 16 flugar hver og fimm með 20 flaugar hver. Sé kenningin um fjóra Borei-báta til viðbótar rétt bætast við 480 kjarnaoddar, þar með verður heildarfjöldinn allt að 1.388 kjarnaoddum. Bátarnir verða ekki allir á sjó í einu vegna viðhalds og viðgerða. Þá er líklegt að í sumum eldflaugunum verði gervioddar til nota við æfingar.
Hvað sem þessum útreikningum líður er fræðilega hugsanlegt að 1.000 kjarnaoddar verði í skotstöðu á hverjum tíma og þeim fjölgar örugglega verulega um borð í kafbátum frá því sem nú er.
Heimahöfn langdrægu kjarnorkukafbáta Rússa er í Gadzhievo við Barentshaf, norðvestur af Múrmansk.
Í fyrrgreindri bandarískri skýrslu sem samin er af kjarnorkuvopnafræðingunum Hans M. Kristensen og Robert S. Norris og birtist í nýjasta hefti tímaritsins Bulletin of the Atomic Scientists segir:
„Í endurnýjunaráætlunum flotans er gert ráð fyrir að smíðaðir verði nýir kjarnorkuknúnir árásarkafbátar af Severodvinsk-gerð. Fyrstu bátarnir af þessari gerð voru teknir í notkun árið 2015 og talið er að þeir séu búnir kjarnorku-útgáfu af Caliber-stýriflaugum sem skjóta má af hafi.“
Frá kafbátum af Severodvinsk-gerð verður einnig unnt að SS-N-16 kjarnaflaugum til varnar gegn kafbátum og auk þess kjarnorku-tundurskeytum.
Skammdræg kjarnorkuvopn eins og þau sem eru um borð í Severodvinsk-kafbátunum falla ekki undir START-samninginn og eru því til viðbótar við langdrægu kjarnaflaugarnar.
Eini kafbátur Rússa af Severodvinsk-gerð sem nú er í notkun á heimahöfn í Litsa-firði, um 55 km frá landamærum Noregs í norðri.
Ritstjóri Barents Observer minnir á að haustið 2017 verði 30 ár liðin frá því að Mikhaíl Gorbatsjov, þáverandi forseti Sovétríkjanna, flutti fræga ræðu í Murmansk þar sem hann hvatti til þess að Norður-Evrópa yrði kjarnorkuvopnalaust svæði. Segir ritstjórinn, Thomas Nilsen, þann draum fjarlægari nú en nokkurn gat órað fyrir á lokaárum Gorbatjsovs í forystu Sovétríkjanna.