Home / Fréttir / Mikillar endurýjunar þörf í þýska hernum

Mikillar endurýjunar þörf í þýska hernum

NH90 flutningaþyrla.
NH90 flutningaþyrla.

 

Birt hefur verið efni úr skýrslu um þýska herinn, Bundeswehr, sem lögð verður fyrir þýska þingið miðvikudaginn 28. febrúar. Skýrslan sýnir að innan við 50% af mörgum helstu hergögnum í Þýskalandi eru nothæf, þau eru hvorki til reiðu við æfingar né í þágu herafla sem er sendur á vettvang.

Skýrslan er samin fyrir þýska varnarmálaráðuneytið. Þar kemur fram að 39 af 128 Eurofighter orrustuþotum eru til taks, 26 af 93 Tornado orrustuþotum, 16 af 72 CH-53 flutningaþyrlum, 13 af 58 NH-90 flutningaþyrlum, 12 af 62 Tiger-þyrlum, 3 af 15 A400M flutningaflugvélum, 105 af 224 Leopard 2 skriðdrekum og 5 af 13 freigátum.

Vestur-Þýskaland varð aðili að NATO árið 1955. Það var þó ekki fyrr en eftir sameiningu Þýskalands í eitt ríki árið 1990 sem þýska ríkisstjórn tók ákvörðun um að beita mætti þýska hernum í þágu NATO-verkefna utan varnarsvæðis bandalagsins.  Liðsmenn í Bundeswehr hafa síðan verið sendir til starfa í ýmsum löndum heims.

Varnarmálaráðuneytið segir að fjölgun æfinga og breytingar á vettvangsveru heraflans eftir að Rússar hófu íhlutun í austurhluta Úkraínu árið 2014 hafi flýtt meira fyrir sliti á búnaði en áður var.

Í skýrslunni segir að hvað sem öðru líði séu flest vopnakerfi nærtækari til notkunar en áður var. Um 550 fleiri vopn voru til taks árið 2017 en árið 2014. Þá voru einnig fleiri vopn í notkun hjá hersveitum við verkefni erlendis. Segir ráðuneytið að þessar tölur sýni að Þjóðverjar geti staðið við skuldbindingar sínar innan NATO.

Ursula von der Leyen, varnarmálaráðherra (CDU), talaði máli Bundeswehr í viðtali við Passauer Neue Presse í Bæjarlandi þriðjudaginn 27. febrúar. Hún sagði að ekki væri unnt að að fylla í öll skorð sem myndast hefðu í hernum vegna aðhaldsaðgerða og niðurskurðar í 25 ár. Það sé harðsótt að tryggja hernum 200 milljarða evrur til endurnýjunar en staðið yrði við þá áætlun.

Í stjórnarsáttmála fjórða ráðuneytis Angelu Merkel sem skipað verður í næstu viku samþykki Jafnaðarmannaflokkurinn (SPD) framhald stjórnarsamstarfsins er gert ráð fyrir 10 milljarða aukafjárveitingu til Bundeswehr. Í sáttmálanum er einnig sagt að herinn skuli njóta „forgangs“.

 

 

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …