Home / Fréttir / Mikill stuðningur við endurnýjun kjarnorkuheraflans í breska þinginu

Mikill stuðningur við endurnýjun kjarnorkuheraflans í breska þinginu

Breskur kjarnorkukafbátur.
Breskur kjarnorkukafbátur.

Mikill meirihluti breskra þingmanna samþykkti að kvöldi mánudags 18. júlí að endurnýja kafbátana sem eru skotpallar fyrir langdrægu Trident-kjarnorkueldflaugarnar, þungamiðju fælingarmáttar breska hersins. Alls studdu 472 þingmenn tillöguna um endurnýjun en 117 voru á móti, meirihlutinn var því 355 atkvæði.

Í kosningastefnuskrá sinni árið 2015 hét Íhaldsflokkurinn að endurnýja kafbátana fjóra, Vanguard, Victorious, Vigilant og Vengeance. Endurnýjunin tekur 35 ár og er kostnaðaráætlun nú á bilinu 31 til 35 milljarðar punda.

Theresa May forsætisráðherra flutti fyrstu þingræðu sína sem leiðtogi íhaldsmanna til stuðnings tillögunni um Trident-endurnýjunina. Kafbátarnir tryggðu ekki aðeins varnir Breta gegn sívaxandi hótunum frá Rússlandi og Norður-Kóreu heldur yrði nýsmíði kafbáta og kerfa þeirra til skapa störf og þekkingu í Bretlandi. Kafbátarnir hafa heimahöfn við Clyde-ána í Skotlandi.

Upphaflega hafði verið ráðgert að greidd yrðu atkvæði um málið í mars en David Cameron, þáv. forsætisráðherra, frestaði afgreiðslu um það vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar um ESB-aðild Breta, Brexit.

Íhaldsmenn stóðu einhuga að samþykkt tillögunnar á þingi, af 59 þingmönnum frá Skotlandi í neðri málstofunni greiddu 58 atkvæði gegn tillögunni þar af allir 54 þingmenn Skoska þjóðarflokksins. Verkamannaflokkurinn klofnaði illilega. Opinber stefna Verkamannaflokksins er að Trident-kerfinu skuli viðhaldið. Jeremy Corbyn, leiðtogi flokksins, er hins vegar andvígur endurnýjun kjarnorkuheraflans.

Þegar Corbyn flutti ræðu sína gegn tillögunni á þingi gripu hans eigin þingmenn oft frammí fyrir honum. Var hann meðal annars spurður hver væri stefna Verkamannaflokksins, hvort hann ætti ekki að fylgja henni. Í atkvæðagreiðslunni reis mikill meirihluti þingmanna flokksins gegn Corbyn, 140 þingmenn studdu tillöguna en aðeins 47 studdu andstöðu Corbyns gegn henni.

 

 

Skoða einnig

NATO-aðild Úkraínu til umræðu í Moldóvu og Osló

Í gær (1. júní) lauk tveggja daga óformlegum utanríkisráðherrafundi NATO-ríkjanna í Osló. Þá var einnig …