Home / Fréttir / Mikill stuðningur við endurnýjun kjarnorkuheraflans í breska þinginu

Mikill stuðningur við endurnýjun kjarnorkuheraflans í breska þinginu

Breskur kjarnorkukafbátur.
Breskur kjarnorkukafbátur.

Mikill meirihluti breskra þingmanna samþykkti að kvöldi mánudags 18. júlí að endurnýja kafbátana sem eru skotpallar fyrir langdrægu Trident-kjarnorkueldflaugarnar, þungamiðju fælingarmáttar breska hersins. Alls studdu 472 þingmenn tillöguna um endurnýjun en 117 voru á móti, meirihlutinn var því 355 atkvæði.

Í kosningastefnuskrá sinni árið 2015 hét Íhaldsflokkurinn að endurnýja kafbátana fjóra, Vanguard, Victorious, Vigilant og Vengeance. Endurnýjunin tekur 35 ár og er kostnaðaráætlun nú á bilinu 31 til 35 milljarðar punda.

Theresa May forsætisráðherra flutti fyrstu þingræðu sína sem leiðtogi íhaldsmanna til stuðnings tillögunni um Trident-endurnýjunina. Kafbátarnir tryggðu ekki aðeins varnir Breta gegn sívaxandi hótunum frá Rússlandi og Norður-Kóreu heldur yrði nýsmíði kafbáta og kerfa þeirra til skapa störf og þekkingu í Bretlandi. Kafbátarnir hafa heimahöfn við Clyde-ána í Skotlandi.

Upphaflega hafði verið ráðgert að greidd yrðu atkvæði um málið í mars en David Cameron, þáv. forsætisráðherra, frestaði afgreiðslu um það vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar um ESB-aðild Breta, Brexit.

Íhaldsmenn stóðu einhuga að samþykkt tillögunnar á þingi, af 59 þingmönnum frá Skotlandi í neðri málstofunni greiddu 58 atkvæði gegn tillögunni þar af allir 54 þingmenn Skoska þjóðarflokksins. Verkamannaflokkurinn klofnaði illilega. Opinber stefna Verkamannaflokksins er að Trident-kerfinu skuli viðhaldið. Jeremy Corbyn, leiðtogi flokksins, er hins vegar andvígur endurnýjun kjarnorkuheraflans.

Þegar Corbyn flutti ræðu sína gegn tillögunni á þingi gripu hans eigin þingmenn oft frammí fyrir honum. Var hann meðal annars spurður hver væri stefna Verkamannaflokksins, hvort hann ætti ekki að fylgja henni. Í atkvæðagreiðslunni reis mikill meirihluti þingmanna flokksins gegn Corbyn, 140 þingmenn studdu tillöguna en aðeins 47 studdu andstöðu Corbyns gegn henni.

 

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …