Home / Fréttir / Mikil Norðurflotaheræfing Rússa hafin

Mikil Norðurflotaheræfing Rússa hafin

Fimm rússnesk herskip halda til æfinga frá Kólaskaga 19. apríl 2021.
Fimm rússnesk herskip halda til æfinga frá Kólaskaga 19. apríl 2021.

Rússneski Norðurflotinn hóf miklar heræfingar mánudaginn 19. apríl þegar kafbátar, knúnir kjarnorku og dísil, herskip og stuðningsskip héldu út á Barentshaf frá höfnum á Kólaskaga.

Í liðinni viku heimsótti Sergei Shoigu, varnarmálaráðherra Rússlands, höfuðstöðvar Norðurflotans. Í ræðu sem hann flutti í Severomorsk á Kólaskaga lagði ráðherrann áherslu á að Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra í NATO efldu nú flotastyrk sinn við rússnesku landamærin. Aukna hervæðingu mætti einnig sjá á norðurslóðum.

Ekki hefur verið greint frá því hve mörg skip taka þátt í þessari æfingu Norðurflotans en fjölmiðlaskrifstofa hans birti myndir af fimm herskipum á leið út Kólaflóa. Á myndinni sjást tvær korvettur af Grisha-gerð og þrír tundurduflaslæðarar.

Þá er sagt að langdrægur kafbátur að Delta-IV-gerð auk annarra kjarnorkuknúinna kafbáta taki þátt í æfingunni ásamt dísel-kafbátum.

Samhliða því sem skipin sækja á haf út fara liðsmenn Norðurflotans á landi til stöðva sinna þar og flugmenn hans og loftvarnalið fara í flugherstöðvar víðs vegar á og við norðurströnd Rússlands.

Í tilkynningu frá Norðurflotanum segir að sérstaklega verði hugað að öryggi þeirra staða á þessum slóðum sem skipti rússneskan efnahag miklu.

Rússneska Interfax-fréttastofan sagði mánudaginn 19. apríl að rússneskar MiG-31-orrustuþotur hefðu þann sama dag flogið í veg fyrir bandaríska kafbátaleitarvél af gerðinni P-8A Poseidon og norska eftirlitsvél af gerðinni P-3 Orion yfir Barentshafi. Rússnesku vélarnar hefðu snúið aftur til heimavalla sinna eftir að erlendu vélarnar sneru frá skammt frá lofthelgi Rússlands.

Til hliðar við flotaæfinguna lét rússneska varnarmálaráðuneytið þess getið að um 10 langdrægar sprengjuvélar hefðu sunnudaginn 18. apríl tekið þátt í skotæfingum með stýriflaugum gegn landskotmörkum í Komi-lýðveldinu.

Þarna fóru bæði Tu-95 og Tu-160-sprengjuvélar auk Il-78 eldsneytisvélar sem fyllti tanka sprengjuvélanna á flugi.

Þá berast fréttir frá Svartahafi um að þar sigli stórt landgönguskip úr Norðurflotanum, Aleksandr Otrakovskíj, ásamt landgönguskipum úr rússnesku flotadeildinni á Kaspíahafi.

Áhafnir skipanna æfa sig í að koma loftvarnakerfum í land og öðrum vígtólum. Þá sást annað landgönguskip úr Norðurflotanum, Kondapoga, um helgina þegar það fór um Sæviðarsund (Bosporus) úr Miðjarðarhafi inn á Svartahaf. Rússar hafa stóraukið herafla sinn við suður landamæri Úkraínu undanfarið.

 

Heimild: Barents Observer.

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …