Home / Fréttir / Mikil aukafjárveiting til sænska hersins vegna framgöngu Rússa á Eystrasalti

Mikil aukafjárveiting til sænska hersins vegna framgöngu Rússa á Eystrasalti

Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, um borð í skriðdreka.
Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, um borð í skriðdreka.

Sænski herinn fær aukafjárveitingu fram til ársins 2020 sem nemur 8,1 milljarði sænskra króna (um 110 milljörðum ISK). Með þriggja ára fjárveitingunni er ætlunin að styrkja herinn vegna aukinnar spennu í samskiptum við Rússa á Eystrasalti. Minnihlutastjórn mið-vinstrimanna kynnti þessa ákvörðun miðvikudaginn 16. ágúst.

Samkomulag náðist um aukafjárveitinguna milli stjórnarflokkanna, Jafnaðarmanna og Græningja, og tveggja mið-hægri flokka, Moderatarna og Miðflokksins.

„Þetta er gott merki um pólitískan stöðugleika og framtíðarsýn. Þetta er gott fyrir herinn, mikilvæg skilaboð til umheimsins og gott fyrir Svíþjóð,“ sagði Peter Hultqvist varnarmálaráðherra þegar hann kynnti samkomulagið.

„Við og flokkur minn tókum mið af því sem við teljum best fyrir Svíþjóð en ekki því sem er best fyrir ríkisstjórnina eða best fyrir Moderata-flokkinn,“ sagði Hans Wallmark, talsmaður hægriflokksins (Moderatarna) í varnarmálum.

Bandalag borgaraflokkanna brast í samningaviðræðunum um varnarmálin við ríkisstjórnarflokkana. Kristilegir demókratar sögðu sig frá viðræðunum og Frjálslyndir tóku aldrei þátt í þeim að þessu sinni frekar en í fyrra.

Fjármunirnir verða meðal annars notaðir til að kaupa ný farartæki og skotfæri fyrir herinn. Þá verður þeim fjölgað sem geta hlotið foringjaþjálfun og menntun auk þess sem hermönnum fjölgar almennt.

Töluverðar umræður hafa verið um varnir Svíþjóðar undanfarið vegna þess að Rússar láta nú meira að sér kveða hernaðarlega á Eystrasalti en áður. Rússneski sendiherrann í Svíþjóð var kallaður á teppið í sænska utanríkisráðuneytinu í júní eftir að rússnesk orrustuþota af SU-27 gerð flaug óeðlilega nálægt sænskri eftirlitsvél á alþjóðlegu flugsvæði yfir Eystrasalti.

Herskylda hefur verið innleidd að nýju í Svíþjóð.

 

 

Skoða einnig

Málstofan „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ komin á Netið

Ánægjulegt að deila hér samantekt á nýlegu málþingi Varðbergs „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ sem …