Home / Fréttir / Mikheil Saakashvili rekinn frá Úkraínu til Póllands

Mikheil Saakashvili rekinn frá Úkraínu til Póllands

Mikheil Saakashvili, fyrrv. forseti Georgíu.
Mikheil Saakashvili, fyrrv. forseti Georgíu.

Mikheil Saakashvili, fyrrv. forseti Georgíu, hefur verið fluttur með valdi frá Úkraínu til Póllands. Landamæragæsla Úkraínu sagði mánudaginn 12. febrúar að hann hefði dvalist ólöglega í landinu og komið án lögmætra skilríkja frá Póllandi og þess vegna væri honum brottvísað þangað. 

Lögfræðingur Saakashvilis líkti brottflutningnum við „mannrán“. Forsetinn fyrrverandi fékk ríkisborgararétt í Úkraínu árið 2015 og missti þá sjálfkrafa ríkisborgararéttinn í Georgíu. Hann var sviptur úkraínska ríkisborgararéttinum í júlí 2017 og segja embættismenn hann nú ríkisfangslausan. 

Petro Pertosjenkó, forseti Úkraínu, svipti Saakashvili ríkisborgararéttinum eftir að vinátta þeirra og samstarf slitnaði. Í Georgíu hefur Saakashvili sætt ákæru fyrir hegningalagabrot. Hann neitar allri sök og segir um pólitískar ofsóknir að ræða. 

Hann komst inn í Úkraínu frá Póllandi í september 2017 með aðstoð stuðningsmanna sinna. 

Að lokum var það dómstóll í Úkraínu sem tók af skarið um brottvísun Saakashvilis. Eftir það beittu landamæraverðir og lögregla hann valdi og settu um borð í flugvél til Varsjár. Embættismenn segja að ótilgreindir stuðningsmenn Saakashvilis hafi ráðisr á þá sem fylgdu honum og hafi þeir orðið að verjast í krafti valds síns. 

Pólsk yfirvöld staðfestu mánudaginn 12. febrúar að Saakashvili hefði komið þann dag til Póllands.  

Fyrr þennan sama dag birtu stuðningsmenn Saakashvili myndskeið sem þeir sögðu að sýndi þegar ótilgreindir menn í dularklæðum  hefðu tekið forsetann fyrrverandi höndum í veitingahúsi í Kænugarði. 

Ruslan Tsjornolutskíj, lögfræðingur Saakashvilis, sagði að þetta sýndi „mannrán en ekki handtöku“. Við handtöku yrðu menn að styðjast við dómsúrskurð eða annars konar formlega og skjalfesta ákvörðun. 

Dómari hafnaði í janúar 2018 ósk Saakashvilis um hæli sem flóttamaður. Ákvörðuninni var áfrýjað en án árangurs og lá sú niðurstaða fyrir fyrr í þessum mánuði. Yfirvöld í Úkraínu hafna ásökunum um að þau beiti Saakashvili órétti af pólitískum ástæðum. Allar ákvarðanir séu lögum samkvæmt.  

Saakashvili hefur hvatt til mótmæla á götum úti í Úkraínu. Hann segir að Poroshenkó forseti berjist ekki gegn spillingu af því að hann sé sjálfur spilltur. Um tíma var Saakashvili héraðsstjóri í Odessa-héraði í Úkraínu. 

 

 

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …