Home / Fréttir / Miðjarðarhaf: Áherslur Frontex breytast í átt til löggæslu og gagnaöflunar

Miðjarðarhaf: Áherslur Frontex breytast í átt til löggæslu og gagnaöflunar

Myndin er frá Frontex og sýnir fólk bíða eftir að vera bjargað um borð i herskip á Miðjarðarhafi.
Myndin er frá Frontex og sýnir fólk bíða eftir að vera bjargað um borð i herskip á Miðjarðarhafi.

Evrópska landamæra- og strandgæslustofnunin Frontex stefnir nú að því að greina betur hverjir það eru sem leitast við að koma sem farandmenn til Evrópu yfir Miðjarðarhaf.  

Stofnunin hratt fimmtudaginn 1. febrúar í framkvæmd Themis-verkefninu sem ætlað er að stemma stigu við ferðum þeirra sem grunaðir eru um hryðjuverk eða önnur glæpaverk yfir Miðjarðarhaf. Skip stofnunarinnar munu áfram sinna leitar- og björgunarstörfum sé þeirra þörf. 

Með áherslunni á að festa hendur í hári illvirkja verður stefnubreyting í starfi Frontex og fyrirmælum til áhafna skipa sem haldið er úti í nafni stofnunarinnar. Í frétt vefsíðunnar EUobserver um málið segir að upplýsingafulltrúi í höfuðstöðvum Frontex í Varsjá segi að „veruleg áhersla á öryggismál“ felist í Themis-verkefninu. Þar sé meðal annars um að ræða „söfnun upplýsinga og aðrar aðgerðir í því skyni að finna erlenda vígamenn og greina aðra hryðjuverkaógn við ytri landamæri“ Schengen-svæðisins. 

Upplýsingum sem safnað er af starfsmönnum Frontex innan ramma Themis verður miðlað til ítalskra yfirvalda og til Evrópulögreglunnar, Europol. 

Themis-verkefnið nær til svæðis á Mið-Miðjarðarhafi, frá ströndum Alsír, Túnis, Líbíu, Egyptalands, Tyrklands og Albaníu. Í þessu felst að einnig verður gæsla hert á Adríahafi vegna fíkniefnaleiða um það frá Albaníu. 

Fabrice Leggeri, forstjóri Frontex, sagði í fyrri viku að líta bæri á stofnunina sem löggæsluaðila svo að hún gæti miðlað persónuupplýsingum um einstaklinga án þess að verða sökuð um brot á lögum um persónuvernd. 

Til þessa hefur Frontex miðlað upplýsingum til Europol. Í fyrra sendi hún 1.300 mál til Europol í Haag. 

„Hver hefði getað ímyndað sér fyrir þremur árum að stofnun á borð við Frontex aflaði persónuupplýsinga, sendi þær til Europol og lögregluyfirvalda einstakra landa til frekari rannsóknar og vegna aðgerða til að koma í veg fyrir árás,“ sagði Leggeri við nefnd ESB-þingsins. 

 

Heimild: EUobserver 

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …