Home / Fréttir / Miðjarðarhaf: 6500 manns bjargað úr sjávarháska á einum degi

Miðjarðarhaf: 6500 manns bjargað úr sjávarháska á einum degi

 

Björgunarmenn að störfum á Miðjarðarhafi.
Björgunarmenn að störfum á Miðjarðarhafi.

Ítalska strandgæslan skýrði frá því mánudaginn 29. ágúst að undir hennar stjórn hefði 6.500 manns á leið yfir Miðjarðarhaf frá Líbíu verið bjargað úr sjávarháska undan strönd Líbíu. Um er að ræða fólk sem vill komast ólöglega til Evrópu. Var þetta einna mesti fjöldi þess sem bjargað hefur verið á einum degi á þessu ári.

Talið er að í ár hafi rúmlega 3.000 farist á þessari hættulegu sjóleið fólks sem borgar smyglurum fyrir leiða sig um borð í fleytur sem hafa oftast aðeins eldsneyti til að sigla þeim út fyrir lögsögu Líbíu.

Hefur þeim fjölgað mjög sem nota leiðina á miðhluta Miðjarðarhafs til að komast til Evrópu eftir að löndin á Balkanskaga lokuðu landamærum sínum og samið var á milli ESB og Tyrkja um að þeir lokuðu leiðum yfir á grísku eyjarnar undan strönd Tyrklands.

Ítalska strandgæslan segir að við stjórn aðgerða nú hafi hún samhæft 40 björgunaraðgerðir með þátttöku skipa á vegum Frontex, landamærastofnunar Evrópu, og hjálparstofnana.

Stjórnvöld á Ítalíu beita sér nú fyrir herferð sem miðar að því að letja fólk til að hefja hættuferðina til Evrópu. Hafa þau tekið höndum saman við Alþjóðastofnun um fólksflutninga, International Organization for Migration (IOM), um birtingu viðvarana í sjónvarpi, hljóðvarpi og samfélagsmiðlum. Markhópurinn er Afríkumenn sem sækja norður eftir Afríku í von um að komast til fyrirheitna landsins, Evrópu.

Áróðursherferðin hófst í lok júlí 2016. Virðist hún ekki hafa borið mikinn árangur til þessa.

Í júní herti ESB aðgerðir sínar gegn smyglurum á fólki yfir Miðjarðarhaf meðal annars með því að þjálfa strandgæsluna í Líbíu.

Angelino Alfano, innanríkisráðherra Ítalíu, segir að 60% þeirra 154.000 sem komu ólöglega til Ítalíu í fyrra hafi verið í leit að betri lífskjörum en ekki á flótta undan stríði eða ofríki. Hann segir að hvorki Ítalir né aðrar Evrópuþjóðir geti tekið á móti öllum.

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …