Home / Fréttir / Miðar til samningsáttar hjá Bretum og ESB

Miðar til samningsáttar hjá Bretum og ESB

Michel Barnier og Ursula von der Leyen.
Michel Barnier og Ursula von der Leyen.

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, segir þrjú meginmál óleyst í brexit-viðræðunum við Breta, það er um stjórnunarhætti, fiskveiðar og samkeppnisreglur. Hún fagnaði því föstudaginn 20. nóvember að vel hefði miðað í viðræðunum undanfarna daga. Lokaspretturinn er eftir.

„Það liðu nokkrar erfiðar vikur án þess að mikið gerðist en undanfarna daga hefur miðað betur, meiri hreyfing er á mikilvægum sviðum. Það er gott,“ sagði hún.

„Við stöndum auðvitað enn frammi fyrir þremur óleystum meginmálum: stjórnunarháttum, fiskveiðum og jafnri samkeppnisstöðu. Að því er varðar jöfnu samkeppnisstöðuna hefur þó til dæmis miðað í rétta átt varðandi reglur um ríkisaðstoð,“ sagði von der Leyen í Brussel.

Hún sagði einnig að samninganefndin ynni „þrotlaust dag og nótt til að standa við sett tímamörk … í lok ársins.“

Háttsettur ESB-embættismaður staðfesti við þýsku fréttastofuna DW að það hefði náðst „sýnilegur árangur“ undanfarna daga og bilið milli aðilanna „minnkaði hægt“ þegar þeir ræddu helstu ágreiningsmálin.

ESB-diplómati frá ríki sem ræður yfir öflugum fiskiðnaði sagði að það væri nú á hendi Boris Johnsons, forsætisráðherra Breta, að taka af skarið til að tryggja samning.

Fulltrúi breskra stjórnvalda vildi ekki segja neitt um það sem von der Leyen sagði. Hann vildi aðeins láta hafa eftir sér að í síðustu lotu viðræðnanna hefði „miðað í rétta átt“.

Gert var hlé viðræðunum fimmtudaginn 19. nóvember eftir að fulltrúi í ESB-sendinefndinni greindist með COVID-19-smit. Við það ákvað Michel Barnier, formaður ESB-samninganefndarinnar, að fara í sjö til 10 daga sóttkví eins og mælt er fyrir um í sóttvarnareglum Belgíu.

ESB-embættismenn telja að það taki um það bil mánuð fyrir lögfræðinga og þýðendur að ganga frá lokatexta viðskiptasamnings Breta og ESB eftir að samið hefur verið um efnisatriðin.

Í reglum ESB-þingsins segir að þýða verði öll ESB-skjöl á 23 opinber tungumál sambandsins áður þingmenn geta tekið þau til atkvæða. Frakkar vilja að þessum reglum sé fylgt vegna brexit. „Mundi breska þingið taka samning til afgreiðslu væri hann ekki til á ensku?“ var spurt.

Reuters-fréttastofan hafði það eftir breskum heimildarmanni föstudaginn 20. nóvember að varðandi ríkisaðstoð hefðu Bretar boðið að óhlutdrægur aðili hefði eftirlit með því hvernig staðið væri að stuðningi við fyrirtæki en ESB hefur óskað eftir slíkri skipan til að tryggja jafna samkeppnisstöðu.

Reuters hafði síðan eftir ESB-embættismanni að þetta væri rétt en Bretar vildu þó ekki ganga eins langt til að tryggja óhlutdrægni eftirlitsaðilans og ESB vildi.

Þessar viðræður fulltrúa Breta og ESB um viðskiptasamning til frambúðar hafa nú staðið í átta mánuði. Markmiðið er að gera viðskiptasamning sem taki gildi þegar Bretar segja skilið við pólitískar stofnanir ESB í lok janúar 2021.

Heimild: DW

 

Skoða einnig

Jevgeníj Pirogsjin.

Wagner-foringi skapar spennu í Kreml

Jevgeníj Prigosjín, foringi alræmdu Wagner-málaliðanna, hefur opinberlega hafnað lykilatriðum í útlistun Kremlverja á tilefni stríðsins …