Home / Fréttir / Mið-hægrimenn með hreinan meirihluta á gríska þinginu

Mið-hægrimenn með hreinan meirihluta á gríska þinginu

 

Kyriakos Mitsotakis flokksleiðtogi næsti forsætisráðherra Grikklaqnds, fagnar sigri.
Kyriakos Mitsotakis flokksleiðtogi næsti forsætisráðherra Grikklaqnds, fagnar sigri.

Grískir kjósendur veittu mið-hægriflokknum Nýtt lýðræði öflugan stuðning í þingkosningum sunnudaginn 6. júlí og verður Kyriakos Mitsotakis flokksleiðtogi næsti forsætisráðherra landsins. Alexis Tsipras, fráfarandi forsætisráðherra vinstra bandalagsins Syriza, viðurkenndi ósigur sinn strax eftir að fyrstu tölur lágu fyrir.

Ríkisstjórnarskiptin verða mánudaginn 7. júlí.

Eftir að 80% atkvæða höfðu verið talin sagði innanríkisráðuneytið að Nýtt lýðræði (NL) fengi 37,8% atkvæða en Syriza 31,6%. Með þetta fylgi fær NL 158 þingmenn af 300 í gríska þinginu og þar með hreinan meirihluta.

Mið-vinstri flokkurinn Umbótahreyfingin var þá með 7,92 % atkvæða, aðrir flokkar yfir 3% þröskuldinum voru Kommúnistaflokkurinn, hægriflokkurinn Gríska lausnin og Lýðræðishreyfing Evrópu 2025.

Mitotakis fékk heillaóskir frá Recep Tayyip Erdogan, forseta Tyrklands. Spenna milli nágrannaþjóðanna hefur aukist undanfarna mánuði vegna deilu um ráð yfir oliu- eða gaslindum undan strönd Kýpur.

Stuðningsmenn NL sögðu um sögulegan sigur að ræða. Konstantinos Mitsotakis faðir Kyriakosar var forsætisráðherra Grikklands 1990 til 1993. Margir segja að Kyriakos (51 árs) hafi helst stuðlað að sigri NL. Hann hlaut menntun sína meðal annars í Harvard-háskóla og starfaði við fjármálastofnanir og banka áður en hann sneri sér alfarið að stjórnmálum. Honum hefur verið mikið kappsmál að nútímavæða flokk sinn frá því að hann tók við forystu hans árið 2016.

Leita verður aftur til ársins 2007 til að sjá sambærilegan styrk NL á gríska þinginu. Árið 2009 varð hrun í Grikklandi og síðan hefur þjóðin verið í skuldafjötrum. Margir þingmanna NL stíga nú í þingsalinn í fyrsta sinn. Þeir gengu til liðs við flokkinn vegna stefnu hans um að blása nýju lífi í þjóðarbúskapinn með því að laða að erlenda fjárfesta og skapa ný störf eftir að Tsipras og félagar hafa farið með stjórn landsins í fjögur og hálft ár.

Tsipras rauf þing og boðaði til kosninga þremur og hálfum mánuði fyrir lok kjörtímabilsins eftir að Syriza galt afhroð í kosningunum til ESB-þingsins undir lok maí.

Efnahag Grikkja hefur verið haldið á floti síðan 2010 af alþjóðlegum neyðarsjóðum. Nú er aðstoð af því tagi úr sögunni en aðhaldsaðgerðir hafa verið nauðsynlegar til að halda þjóðinni inni á evru-svæðinu.

Undir forystu Mitsotakis hefur NL fylgt tvíþættri stefnu: höfða í efnahagsmálum til miðjufylgis og í þjóðernismálum til fylgismanna Gylltrar dagrenningar. NL hefur mótað harða útlendingastefnu og flokkurinn var andvígur samningnum sem Tsipras gerði við stjórn Norður-Makedóníu um heiti á landinu. Gyllt dagrenning fékk engan mann kjörin og féll út af þingi.

Alls buðu 20 flokkar fram lista í kosningunum. Þar á meðal var vinstri flokkurinn MeRA25 sem Yanis Varoufakis, fyrrverandi fjármálaráðherra, leiddi. Hann sóttist einkum eftir fylgi ungs fólks og náði ekki að komast yfir 3% þröskuldinn.

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …