Home / Fréttir / Mette Frederiksen breytir um tón varðandi NATO-embættið

Mette Frederiksen breytir um tón varðandi NATO-embættið

Mette Frederiksen á Borgundarhólmi 15. júní 2023.

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Dana, setti umræður á heimavettvangi í Danmörku um hvort hún yrði næsti framkvæmdastjóri NATO í nýjan farveg fimmtudaginn 15. júní þegar hún sagðist styðja að samið yrði við Jens Stoltenberg, núverandi framkvæmdastjóra, um að hann sæti lengur í embættinu.

Við danska ríkisútvarpið sagði Mette Frederiksen að hún væri ekki á leið til NATO.

Leiðtogar dönsku stjórnmálaflokkanna eru nú á svonefndu Folkemøde sem haldið er árlega um þetta leyti á Borgundarhólmi.

Fréttamenn DR leituðu álits annarra flokksformanna á þessum ummælum forsætisráðherrans. Þeim þótti ekki mikið að marka að Frederiksen vísaði NATO embættinu frá sér.

Formaður Danmarksdemokraternes, Inger Støjberg, taldi orð ráðherrans ekki mikils virði:

„Hvað ætti hún að segja annað en þetta? Hún getur jú ekki sagt að hún sé umsækjandi. Í mínum huga er þetta ekkert nýtt.“

DR bendir á Inger Støjberg hafi meiri reynslu í þessu efni en aðrir flokksformenn. Hún var málsvari þingflokks Venstre árið 2009 þegar þáverandi flokksformaður, Anders Fogh Rasmussen forsætisráðherra, sóttist eftir að verða framkvæmdastjóri NATO (sem hann varð).

Þá þurfti Inger Støjberg trekk í trekk að svara fréttamönnum og endurtaka að forsætisráðherrann væri ekki umsækjandi hjá NATO. Nú segir hún:

„Þetta er einmitt eitt af þeim málum þar sem forsætisráðherrann kemst upp með ljúga.“ Nú geti Mette Frederiksen ekki gert annað en logið, hún geti ekki viðurkennt að vera umsækjandi.

DR spurði Lars Løkke Rasmussen, utanríkisráðherra og formann Moderaterne, hvort ummæli Mette Frederiksen breyttu einhverju. Utanríkisráðherrann sagði þau ekki gera það hér og nú. Það hafi í raun ekkert gerst. Það sé logn í dönskum stjórnmálum.

Lars Løkke vill ekkert segja um hvort Stolrenberg verði beðinn að sitja áfram, hann hafi hins vegar verið „ákaflega duglegur framkvæmdastjóri“. Það sé ekki sitt að spá og spjalla mestu skipti fyrir Dani að NATO sé öflugt. Það krefjist öflugs framkvæmdastjóra.

Nú sé málum háttað á þann veg og þannig verði NATO einnig stjórnað í framtíðinni hvort sem Stoltenberg starfi áfram eða ekki. Hvað sem því líði komi að því að ráða verði nýjan í starfið.

 

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …