Home / Fréttir / Metmannfall Rússa í febrúar 2024.

Metmannfall Rússa í febrúar 2024.

Myndina tók Mauricio Lima fyrir The New York Times.

Breska varnarmálaráðuneytið telur líklegt að meira en 355.000 Rússar hafi fallið eða særst í Úkraínustríðinu sem sýni að ráðamenn í Moskvu ætli að heyja langvinnt þreytistríð.

Sunnudaginn 3. mars sagði í daglegri tilkynningu ráðuneytisins um gang stríðsins að meðalmannfall hjá Rússum á dag hafi verið hæst í febrúar 2024 frá því að innrás rússneska hersins hófst fyrir tveimur árum. Dag hvern hefðu 983 fallið.

Í Moskvu og Kyív hvílir mikil leynd yfir því hve margir hermenn falla í valinn eða særast vegna áhrifa slíkra upplýsinga á baráttuanda þeirra sem eru á vígvellinum og á almenna borgara fyrir utan áhrif talnanna á þá sem fylgjast með stríðinu úr fjarlægð.

Fréttastofan Euronews segist ekki geta sannreynt hvort tölur breska varnarmálaráðuneytisins séu réttar. Þá sé ekki vitað hvaða aðferð ráðuneytið beitir til að telja fallna og særða.

Her Rússa náði úkraínska bænum Advijka í febrúar. Er það mesta herfang þeirra um margra mánaða skeið. Var ákaft barist um bæinn.

Rússneska varnarmálaráðuneytið sagði að her þess hefði sótt fram um 9 km og mundi herða sókn sína áfram í Donetsk-héraði í austurhluta Úkraínu.

Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti sagði sunnudaginn 25. febrúar að 31.000 úkraínskir hermenn hefðu verið drepnir á vígvellinum síðan Rússar hófu innrás sína 24. febrúar 2022.

„Hvorki 300.000 né 150.000, ekki neinn fjöldi sem birtist í lygum Pútins eða blekkingarsmiðanna umhverfis hann. Hvað sem því líður er dauði hvers og eins mikil fórn fyrir okkur,“ sagði forsetinn í Kyív.

Forsetinn hafði ekki áður staðfest neinar tölur um mannfall í liði Úkraínu en Zelenskíj lét ekki nein orð falla um hve margir hermenn hefðu særst eða teldust tíndir. Frá því yrði ekki skýrt fyrr en að stríðinu loknu.

Rússnesk yfirvöld hafa lítið sagt um mannfall í liði sínu. Síðustu opinberu tölur rússneska varnarmálamálaráðuneytisins eru frá 2023 þegar sagt var að rétt rúmlega 6.000 hefðu fallið.

 

Heimild: Euronews.

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …