Home / Fréttir / Mesta flughersæfing í Evrópu að hefjast á norðurslóðum

Mesta flughersæfing í Evrópu að hefjast á norðurslóðum

Bandarísk B-52 sprengjuvél með sprengjum og skotfærum. Fullhlaðin vegur vélin 220 tonn. Vænghafið er 56,4 m. Mynd: U.S. Air Force photo/Tech. Sgt. Robert Horstman.
Bandarísk B-52 sprengjuvél með sprengjum og skotfærum. Fullhlaðin vegur vélin 220 tonn. Vænghafið er 56,4 m. Mynd: U.S. Air Force photo/Tech. Sgt. Robert Horstman.

Í næstu viku hefst mesta flughersæfing í Evrópu í ár. Hún fer fram yfir Norður-Noregi, Norður-Svíþjóð og Finnlandi. Um 1.000 manns og rúmlega 100 herflugvélar taka þátt í æfingunni Arctic Challenge Exercise dagana 22. maí til 2. júní.

Auk orrustuvéla, flutningavéla, eldsneytisvéla, véla til rafeindahernaðar, flutninga- og björgunarþyrlna verða einnig æfðar loftvarnir af landi.

Í fyrsta sinn í sögu slíkra æfinga gerist það að bandarísk B-52H sprengjuvél tekur þátt í henni. Vélinni verður ekki lent í neinu landanna en verður með í æfingum í lofti á lokadögum æfingarinnar.

Helstu flugvellir æfingarinnar eru í  Bodø í Noregi, Luleå i Svíþjóð og Rovaniemi í Finnlandi.

Æfingin fer fram á grunni norræna varnarsamstarfsins með orrustuflugvélum sem hófst árið 2008 þegar Svíar og Finnar hófu að æfa saman. Næstum í hverri viku æfa flugherir landanna saman yfir landamærin í norðri.

Með Arctic Challenge Exercise (ACE) er norræna samstarfið fært út með þátttöku annarra þjóða. Auk Norðmanna, Svía og Finna taka Bandaríkjamenn, Bretar, Þjóðverjar, Frakkar, Hollendingar, Kandamenn, Belgar og Svisslendingar þátt í æfingunni.

Æfingasvæðið er einstakt þar sem mjög lítið er um vélar í áætlunarferðum svona norðarlega í Evrópu. Sunnar í Evrópu þrengir farþegaflug æfingasvæði flugherja.

Þetta er í þriðja sinn sem Norðmenn, Svíar og Finnar standa sameiginlega að ACE-æfingu en til hennar hefur verið efnt árlega síðan 2013. Í ár eru Finnar forystuþjóðin.

 

 

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …