Handelsblatt í Þýskalandi skýrði frá því miðvikudaginn 30. september að þýska ríkisstjórnin ætlaði að setja svo strangar reglur fyrir innleiðingu á 5G-farkerfinu að kínverska fyrirtækið Huawei yrði að líkindum útilokað frá þýska markaðnum.
Bandarríska blaðið The Wall Street Journal birti leiðara af þessu tilefni laugardaginn 3. október. Þar sagði:
„Trump-stjórninni hefur gengið bærilega að sannfæra bandamenn sína um að útiloka Huawei frá 5G-farkerfum sínum en í hópnum hafa Þjóðverjar vakið mesta athygli fyrir að skapa sér sérstöðu. Það eru góðar fréttir að ráðamenn í Berlín ætla brátt að bregðast við öryggisáhættunni sem stafar frá kínverska farsíma-risanum.
Ríkisstjórn Angelu Merkel kanslara er sögð vinna að gerð laga sem leiði til þess að fjari undan Huawei sem 5G-birgja í Þýskalandi. Ekki er beint talað um bann heldur gerir frumvarpið ráð fyrir skilyrðum við töku ákvörðunarinnar sem líklega halda kínverska fyrirtækinu utan Þýskalands. Einstök ákvæði í frumvarpinu kunna að breytast en stjórnvöld í Washington virðast sátt. „Við sjáum hlutina þróast í rétta átt í Þýskalandi,“ sagði Keich Krach, aðstoðarutanríkisráðherra á sviði efnahagsmála á miðvikudaginn. „Það er í raun engin framtíð með Huawei.“
Í júlí komu þau varnaðarorð frá framkvæmdastjórn ESB að í Evrópu ætti að forðast að „verða háður stór-áhættu birgjum“ sem var óblíð tilvísun til Huawei. Bretar tilkynntu um bann af sinni hálfu í sama mánuði og í Frakklandi voru settar reglur sem löttu fjarskiptafyrirtæki til að nota Huawei-búnað. Allsherjar bann innan ESB yrði best en líklega fylgja önnur ríki Þjóðverjum hvað sem öðru líður.
Með baráttu sinni vakir ekki fyrir Bandaríkjastjórn að halda fram hlut bandarískra fyrirtækja þar sem Ericsson í Svíþjóð og Nokia í Finnlandi nytu þess mest ef Huawei yrði útilokað frá Evrópu. Höfuðástæðan er þjóðaröryggi. Huawei hefur gamalgróin tengsl við kínverska alþýðuherinn og ekkert kínverskt fyrirtæki nýtur sjálfstæðis gagnvart Kommúnistaflokki Kína.
Merkel fór sér hægt vegna efnahagslegra sjónarmiða. Kínverjar eru mesta viðskiptaþjóð Þjóðverja og niðurgreiðslur kínverska ríkisins lækka verð á Huawei-búnaði umtalsvert. Merkel lætur þó loks til skarar skríða vegna andstöðu úr öllum pólitískum áttum í Þýskalandi og innan eigin flokks.
Kínverska stjórnin kann að hefna sín á þýskum fyrirtækjum sem stunda viðskipti í Kína. Það mundi þó aðeins skjóta enn frekari stoðum undir ákvörðun þýskra stjórnvalda um treysta ekki ráðamönnum í Peking.“