Home / Fréttir / Merkel vill auka útgjöld til varnarmála en Gabriel er á móti því

Merkel vill auka útgjöld til varnarmála en Gabriel er á móti því

Angela Merkel í Sraslund
Angela Merkel í Sraslund

Þjóðverjar „verða“ að standa við skuldbindingar sínar og auka framlag sitt til NATO sagði Angela Merkel Þýskalandskanslari á kosningafundi í Straslund laugardaginn 25. febrúar. Varakanslarinn, jafnaðarmaðurinn Sigmar Gabriel, er annarrar skoðunar.

Angela Merkel flutti ræðuna í kjördæmi sínu í Norðaustur-Þýskalandi í upphafi baráttu sinnar vegna kosninganna til þýska sambandsþingsins í september 2017. Hún sagði að Þjóðverjar yrðu að standa við skuldbindingu sína gagnvart NATO í samræmi við ályktun á ríkisoddvitafundi þess í september 2014. Þar var ákveðið að aðildarríkin mundu verja að minnsta kosti 2% af vergri landsframleiðslu sinni (VLF) til varnarmála.

„Það ber að standa við skuldbindingar. Aðrir í heiminum munu auk þess krefjast þess af okkur. Ég held raunar að þeir hafi rétt fyrir sér, Þjóðverjar verða að virða skuldbindingar sínar,“ sagði kanslarinn.

Orð Merkel eru í samræmi við yfirlýsingar Ursulu von der Leyen, varnarmálaráðherra Þýskalands, flokkssystur Merkel í flokki kristilegra (CDU) en í andstöðu við skoðun jafnaðarmannsins (SPD) Sigmars Gabriels, varakanslara Merkel og nýskipaðs utanríkisráðherra .

Fyrir viku flutti Gabriel ræðu á öryggisráðstefnunni í München og dró í efa að nauðsynlegt væri að auka fjárveitingar til varnarmála. Þjóðverjar hefðu stóraukið útgjöld sín síðan 2015 til aðlögunar fyrir flóttamenn og það hefði forvarnargildi.

Eftir að þessi orð Gabriels féllu tilkynnti von der Leyen að ráðuneyti sitt ynni að því að fjölga í hernum og hún sakaði Gabriel um að vilja ekki að Þjóðverjar stæðu við orð sína á NATO-fundinum árið 2014. Samaðilunum að NATO væri ljóst að Þjóðverjum „vegnaði vel efnahagslega“.

Laugardaginn 25. febrúar tók Volker Kauder, þingflokksformaður CSU, kristilegra sósíalista í Bæjarlandi, systurflokks CDU, undir með Ursulu von der Leyen. Hann sagði við dagblað í Essen í Ruhr-héraðinu að von der Leyen hefði ekki verið að bregðast við neinum kröfum frá stjórn Donalds Trumps í Bandaríkjunum. Það væri rangt af Gabriel utanríkisráðherra að halda því fram.

Kauder fullyrti að aukin útgjöld til varnarmála mundu ekki leiða til „niðurskurðar félagslegra útgjalda“.

Í dálknum Karlamagnús (þar sem settar eru fram vangaveltur um stöðu mála í Evrópu) í nýjasta hefti The Economist er spurt hvort þau Evrópuríki sem eru í Atlantshafsbandalaginu séu tilbúin til að draga úr mikilvægi viðskipta og þróunarhjálpar í alþjóðlegum samskiptum og einbeita sér þess í stað að því að auka hernaðarmátt sinn.

Þetta er mikilvæg spurning enda er þetta eitt af því fáa sem lykilmenn í stjórn Trump eru sammála um að Evrópuríkin þurfi að gera.  Það hefur verið markmið ríkja bandalagsins að leggja 2% af þjóðarframleiðslu sinni til varnarmála en í dag uppfylla aðeins fimm af aðildarríkjunum 28 það.  Þetta er reyndar að breytast vegna framferðis Rússa að undanförnu og þeirrar hættu sem stafar af hryðjuverkum auk þess sem aukinn hagvöxtur gerir þeim hægara um vik að styrkja varnarstoðir sínar.

Árið 2014 skuldbundu aðildarríkin sig til þess að ná 2% markinu innan áratugar og flest þeirra hafa aukið fjárframlög sín til þessa málaflokks.  Ekki eru þó allir sáttir við þetta markmið ekki síst ríki í suður og vestur Evrópu sem finnst hættan fjarlæg.  Þau beita líka fyrir sig þeim rökum að tveggja prósenta viðmiðið sé of handahófskennt og að lítil samvinna Evrópuríkja standi þeim frekar fyrir þrifum heldur en að þau hafi ekki úr nægu að spila.  Þannig eyða þessi ríki meira en fjórfalt meira en Rússar í varnir sínar en fjármununum er oft illa varið sem má m.a. sjá af því að Evrópuríki NATO notast við 27 gerðir af fallbyssum (howitzers) og tuttugu tegundir af orustuþotum.

Mörg Evrópuríki vilja líka að öryggi sé skilgreint á breiðari grunni þ.e. þau vilja að tekið sé tillit til þróunarhjálpar enda koma þau þá betur út í samanburði á varnarskuldbindingum.   Slíkur málflutningur er ekki síst vinsæll í Berlín því Angela Merkel telur að hún eigi auðveldara með að fá Þjóðverja til þess að auka varnarútgjöld sín bendi hún þeim á að ríkið geri einnig ýmislegt annað til að vernda landið.

Það má því búast við því að deilurnar um 2% viðmiðið haldi áfram og alls ekki víst að Trump verði að ósk sinni.  Hann hefur reynt að hræða Evrópuríki til hlýðni með því að hóta að draga úr öryggisskuldbindingum Bandaríkjanna við álfuna en þær hugmyndir hans kunna að koma honum í koll.  Fari Þjóðverjar t.d. að efla hernaðarmátt sinn verulega kann það að valda hræðslu meðal annarra ríkja álfunnar sem getur leitt til óstöðugleika.   Jafnvel þó að ekki verði af því gætu Evrópuríkin fundist þau knúin til þess að efla sjálfstæði sitt í varnarmálum teldu þau sig ekki geta treyst skuldbindingum Bandaríkjanna á því sviði.  Slík þróun myndi líklega haldast í hendur við sjálfstæðari utanríkisstefnu sem hætta er á að yrði ólíkari stefnu Bandaríkjanna en um er að ræða í dag.

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …