Home / Fréttir / Merkel víkur úr flokksformennsku – samherji innan CDU nær kjöri

Merkel víkur úr flokksformennsku – samherji innan CDU nær kjöri

Annegret Kramp-Karrenbauer ávarpar CDU-þingið.
Annegret Kramp-Karrenbauer ávarpar CDU-þingið.

Annegret Kramp-Karrenbauer var föstudaginn 7. desember kjörin formaður Kristilega demókrataflokksins (CDU) í Þýskalandi í stað Angelu Merkel kanslara sem sagði af sér flokksformennskunni en ætlar að sitja út kjörtímabilið, til 2021, sem kanslari.

Annegret Kramp-Karrenbauer (AKK) hefur gegnt embætti framkvæmdastjóra CDU síðan Merkel kallaði á hana til Berlínar í febrúar 2018, hafði hún þá setið á stóli forsætisráðherra í Saarlandi síðan 2011. Strax var litið á ákvörðun Merkel sem vísbendingu um að hún vildi AKK eftirmann sinn í flokksformennskuna. Þær aðhyllast báðar þá stefnu að CDU eigi að rækta fylgi á miðjunni og ekki sækja um of til hægri.

Í annarri umferð formannskjörsins á fundi 1001 flokksmanns sem haldinn var í Hamborg sigraði AKK Friedrich Merz kaupsýslumann úr hægri armi flokksins sem tapaði einnig fyrir Merkel þegar hún var kjörinn flokksformaður í stað Helmuts Kohls fyrir 18 árum. Áður en gengið var kosninganna áréttaði Kramp-Karrenbaeur að hún stæði sjálf fyrir sínu og væri ekki nein „mini Merkel“. Hún sagði: „Fólk segir að ég sé eftirmynd, aðeins meira af því sama, en ég get sagt ykkur að ég stend hérna sem mín eigin persóna, sem ég sjálf.“

AKK hlaut 51% atkvæða í seinni umferðinni gegn Merz en þá hafði þriðji frambjóðandinn Jens Spahn helst úr lestinni í fyrri umferðinni.

Stjarna Kramp-Karrenbauer tók að rísa í mars 2017 þegar hún leiddi CDU næsta auðveldlega til sigurs í Saarlandi með 40,7% atkvæða. Þá beindist athygli mjög að Martin Schulz, þáverandi kanslaraefni jafnaðarmanna (SPD) og hann stóð vel í könnunum. Sigur AKK fipaði Schulz og það tók að halla undan fæti hjá honum. Að loknum þingkosningunum í Þýskalandi í september 2017 missti hann alveg fótanna og er nú ekki lengur á stjörnuhimni þýskra stjórnmála.

Kramp-Karrenbauer er 56 ára, fædd í smáþorpinu Völklingen og alin upp í öðru, Püttlingen, í Saarlandi, suðvesturhluta Þýskalands, við frönsku landamærin. Faðir hennar var skólakennari og móðir hennar annaðist heimilið. AKK nam stjórnmálafræði, hún er kaþólsk, þriggja barna móðir.

Hún gekk í CDU árið 1981, tók þátt í ungliðahreyfingu flokksins og í maí 2011 varð hún leiðtogi flokksdeildar CDU í Saarlandi, fyrsta konan til að gegna þeirri stöðu, hlaut hún 97% stuðning í formennskuna.

Þegar Kramp-Karrenbauer varð forsætisráðherra Saarlands árið 2011 myndaði hún stjórn með græningjum og frjálsum demókrötum (FDP). Innan árs rauf hún hins vegar þing Saarlands og boðaði kosningar, að þeim loknum myndaði hún stjórn með jafnaðarmönnum.

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …