Home / Fréttir / Merkel viðurkennir mistök vegna Maaßens

Merkel viðurkennir mistök vegna Maaßens

Angela Merkel.
Angela Merkel.

Angela Merkel Þýskalandskanslari hefur beðist afsökunar fyrir að hafa orðið á í messunni við ákvaraðanir um stöðu fyrir Hans-Georg Maaßen, fyrrverandi yfirmann þýsku öryggis- og njósnastofnunarinnar. Hún segir að þessi mistök hafi nú verið leiðrétt.

Hans-Georg Maaßen verður ekki aðstoðarráðherra í innanríkisráðuneytinu eins og ákveðið var í fyrri viku. Honum verður falið að sinna þar alþjóðlegum málefnum sem sérfræðingur.

Það mæltist hvarvetna illa fyrir að Hans-Georg Maaßen var hækkaður í launum og tign eftir að hann hrökklaðist úr forstjórastóli njósnastofnunarinnar vegna ummæla sinna um myndskeið af mótmælum gegn útlendingum í borginni Chemnitz í Saxlandi, ummælum sem stönguðust á við orð Angelu Merkel.

Horst Seehofer, innanríkisráðherra og leiðtogi stjórnarflokksins CSU í Bæjaralandi, vildi ekki að gert yrði á hlut Maaßens og tók hann því til sín sem aðstoðarráðherra.

Það þykja einstök tíðindi að Merkel biðjist afsökunar á embættisverkum sínum en hún sagði mánudaginn 24. september að þriðjudaginn 18. september hefði hún verið með hugann um of við „gang mála í innanríkisráðuneytinu“ og ekki beint nægri athygli að því sem fólki mundi réttilega finnast þegar það frétti af „stöðuhækkuninni“.

„Mér þykir leitt að við leyfðum þessu að gerast,“ sagði Merkel á blaðamannafundi. Nú hefði fundist sameiginleg lausn stjórnarflokkanna sem ekki fæli í sér neina stöðuhækkun fyrir Hans-Georg Maaßen. Ríkisstjórnin ætti nú að einbeita sér að öðrum málum sem skiptu hag þjóðarinna meiru.

 

 

.

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …