
Finni Þjóðverjar og Frakkar ekki sameiginlega niðurstöðu á stærstu úrlausnarefnum ESB og evru-svæðisins eykst hætta á spennu og óstöðugleika í Evrópusambandinu.
Emmanuel Macron, forseti Frakklands, kynnti fyrir einu ári stórhuga hugmyndir sínar um breytingar á yfirstjórn evru-svæðisins. Hann fór hefðbundna leið ESB-samþróunarsinna og boðaði aukinn samruna með sameiginlegum fjármálaráðherra og skuldaábyrgð.
Angela Merkel Þýskalandskanslari barðist fyrir ári til sigurs í þýskum þingkosningum. Stjórnarmyndunin tók síðan um hálft ár og það er ekki fyrr en sunnudaginn 3. júní 2018 sem hún bregst við hugmyndum Macrons á opinberum vettvangi. Hún slær á puttana á honum eins og Ambrose Evans-Pritchard, viðskiptaritstjóri The Daily Telegraph lýsir í þessari grein í blaðinu þriðjudaginn 5. júní. Greinin birtist hér aðeins stytt:
„Þjóðverjar hafa ýtt til hliðar háleitum áætlunum Frakka um endurbætur á stjórn evru-svæðisins, þeir hafa neitað að stíga nokkur efnisleg skref í átt að fjárlagasambandi eða í átt að sameiginlegu ESB-stjórnkerfi sem yrði virkjað til að takast á við næsta samdráttarskeið í heimsbúskapnum.
Angela Merkel Þýskalandskanslari hefur nú rofið nokkurra mánaða þögn, boðað nokkrar smávægilegar tillögur en áréttað gamalkunnar þýskar mótbárur gegn sameiginlegum fjárlögum og dregið í land miðað við undanslátt sem hún hreyfði um skamman tíma í fyrra. „Samstaða meðal aðila að evru-samstarfinu á aldrei að leiða til skuldasambands,“ segir hún.
Síðastliðinn sunnudag [3. júní] birtist við hana varlega orðað samtal í Frankfurter Allgemeine sem markar þáttaskil í sögu ESB-samrunaþróunarinnar. Í því felst staðfesting á að myntbandalagið verður áfram óformbundið og hættulega óstöðugt þegar næst hallar undan fæti í heiminum.
„Fullveldið er heiðri haft,“ sagði David Marsh, forstöðumaður, Official Monetary and Financial Institutions Forum.
„Hún hefur tekið skýrt af skarið um að þýska þingið verður að eiga síðasta orðið hvenær sem rætt er um að ráðstafa fé þýskra skattgreiðenda,“ sagði hann. „Kjör uppnámsríkisstjórnar á Ítalíu hefur auðveldað ráðamönnum í Berlín að réttlæta það sem þeir vildu hvort sem er gera.“
Undir árslok í fyrra vakti það nokkurn æsing þegar kristilegir demókratar (CDU) Merkel ljáðu máls á því í stjórnarsáttmála við jafnaðarmenn (SPD) að ESB-þingið frekar en Bundestag (þýska þingið) tæki afstöðu til neyðarlána vegna skuldavanda. Í því hefði falist skýr stjórnskipunarbreyting. Hugmyndin rann út í sandinn þegar erki ESB-sambandsríkissinninn Martin Schulz missti stjórn á SPD. Hún er nú dauð.
Merkel hefur vissulega samþykkt Evrópskan gjaldeyrissjóð (European Monetary Fund (EMF)) en samningur að baki honum á að vera á milli ríkisstjórna, það er utan sáttmálakerfis ESB. Þetta tryggir neitunarvald Þjóðverja. Þýska þingið verður að samþykkja sérhvern „björgunarpakka“ með ströngum skilyrðum, einkum aðhaldskröfum og því sem ráðamenn í Berlín telja „umbætur“.
Í stórum dráttum endurspeglar EMF núverandi kerfi en með nýju ákvæði sem veldur hræðslu í París, Róm og Madrid. Merkel vill að einkaaðilar og ríkissjóðir afskrifi skuldir áður en til björgunaraðgerða kemur. Pier Carlo Padoan, fyrrverandi fjármálaráðherra Ítalíu, segir að slík áætlun sé sjálf hvati til krísu. „Afföll yrðu strax á mörkuðum,“ sagði hann.[…]
Í Le Monde segir að skoðanir Merkel valdi „algjörum vonbrigðum“. Macron hafi reist pólitíska framtíð sína á „stórhuga niðurstöðu“, hann hafi vonað að umbótabylgja í Frakklandi mundi milda þýska ráðamenn og tryggja samþykki þeirra við fjármálaráðuneyti evru-svæðisins til að skýla munaðarlausri evrunni.[…]
Það er ekkert undarlegt að þýsk stjórnvöld fylgi harðlínustefnu. Þýski stjórnlagadómstóllinn hefur bundið hendur Merkel. Hann hefur úrskurðað að Bundestag geti ekki afsalað sér fjárlagavaldi á sviði tekju- og útgjalda til yfirþjóðlegrar stofnunar, með því yrði þýskt lýðræði slægt. Þá megi ríkisstjórnin ekki heldur gangast í ábyrgð fyrir skuldum án þess að eiga síðasta orðið. Yrði stofnað til einhvers konar fjárlagasambands yrði að breyta þýsku stjórnarskránni.[…]
Undir lok maí skrifuðu 154 þýskir hagfræðingar undir sameiginlegt bréf og vöruðu við því að þjóðin yrði dregin á asnaeyrunum inn í skuldasamband evru-svæðisins. Þeir sögðu áætlun Macrons ekki aðeins skaðvænlega efnahagslega heldur væri með henni vegið að inntaki þýsks lýðræðis.
Angela Merkel kanslari hefur meðtekið boðskapinn….“