Home / Fréttir / Merkel segir „skelfilega“ morðtilraun gegn Navalníj

Merkel segir „skelfilega“ morðtilraun gegn Navalníj

Aleksei Navalníj
Alexei Navalníj

Þýska ríkisstjórnin sendi frá sér fréttatilkynningu miðvikudaginn 2. september þar sem sagði að Charité – Universitätsmedizin Berlín hefðu tekið eiturefnafræðileg sýni af Alexei Navalníj. Þau hafi tekið af öll tvímæli um að í honum væri að finna novichok-taugaeitur.

Í tilkynningunni segir einnig: „Það er hörmulegt að Alexei Navalníj hefur orðið fyrir árás með taugaeitri í Rússlandi. Þýska ríkisstjórnin fordæmir þessa árás harðlega. Þess er krafist að rússneska ríkisstjórnin skýri hvað gerðist.“

Angela Merkel Þýskalandskanslari sagði að Navalníj hefð orðið fyrir „morðtilræði með taugaeitri“ og hún vænti þess að rússnesk stjórnvöld gerðu hreint fyrir sínum dyrum.

Merkel sagði að fyrir hendi væru „skelfilegar upplýsingar“ sem sýndu „afdráttarlaust“ að eitrað hefði verið fyrir Alexei Navalníj „í því skyni að myrða hann með taugaeitri“. Hann væri „fórnarlamb ódæðis til að þagga niður í honum“. Málið væri svo alvarlegt að miklu skipti að hún „tæki skýra afstöðu“.

Kanslarinn sagði að vegna málsins vöknuðu „mjög alvarlegar spurningar sem rússneska ríkisstjórnin ein getur svarað – og verður að svara. Heimurinn bíður eftir svari,“ sagði hún.

Steffen Seibert, talsmaður Merkel, sagði að sýni úr Navalníj hefðu verið rannsökuð í sérstakri rannsóknarstofu þýska hersins. Seibert sagði að Merkel og ráðherrar hennar hefðu hist til að ræða stöðuna og ákveða aðgerðir. Á Twitter sagði Seibert: „Þýska sambandsstjórnin fordæmir þessa árás af eins miklum þunga og unnt er.“

Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýskalands, kallaði rússneska sendiherrann á sinn fund til að ræða stöðuna.

Þýsk stjórnvöld munu nú ráðgast við samaðila sína að ESB og NATO um hvernig brugðist skuli við í málinu auk þess sem tilkynning verður send til Öryggissamvinnustofnunar Evrópu (ÖSE). Merkel hvatti til sameiginlegra aðgerða og sagði: „Ódæðið gegn Alexei Navalníj beindist gegn grundvallar gildum og réttindum sem njóta okkar verndar.“

Alexei Navalnaj, stjórnarandstæðingur í Rússlandi, veiktist 20. ágúst eftir að hafa drukkið te í flugstöðinni í Tomsk í Síberíu áður en hann gekk um borð í flugvél á leið til Moskvu. Vegna skyndilegra veikinda Navalníjs var vélinni nauðlent í Omsk þar sem hann var fluttur í sjúkrahús. Læknar þar þvertóku fyrir að í honum væri eitur. Þýsk hjálparsamtök sendu sjúkraflugvél frá Berlín til Omsk og eftir tvo sólarhringa fékkst leyfi rússneskra lækna og yfirvalda til að flytja hann í Charité-sjúkrahúsið þar sem hann hefur legið meðvitundarlaus í öndunarvél. Læknar segja hann úr lífshættu en vita ekki um líkamlegt heilbrigði hans.

Novichok er fljótandi efni en það er einnig til í föstu formi. Þá er unnt að dreifa því sem fíngerðu dufti. Það á að hafa mjög skjótvirk áhrif. Þau koma í ljós eftir 30 sekúndur eða innan tveggja mínútna sé fljótandi eitur notað, áhrifin af dufti skila sér á lengri tíma.

Novichok nær yfir flokk af þróuðu taugaeitri. Það er fjórða kynslóð efnavopna og unnið af leynd. Ekki er vitað til þess að efnið hafi verið notað í stríði. Grunsemdir eru um að rússnesk mafía-samtök hafi notað efnið til að drepa rússneska frammámenn.

Árið 2018 var novichok skilgreint í rannsóknarstofu breska hersins í Porton Down sem eitur rússnesku útsendaranna sem reyndu að drepa Rússann Sergei Skripal, fyrrverandi njósnara,  og dóttur hans í Salisbury á Englandi.

Þetta eitur var einnig talið hafa banað ensku konunni Dawn Sturgess og valdið heilsutjóni hjá sambýlismanni hennar. Charlie Rowley. Grunur er um að þau hafi fengið á sig eða í leifar af eitrinu sem notað var gegn Skripal-feðginunum.

 

 

Skoða einnig

Drónaárás gerð á Moskvu

Ráðist var með drónum á Moskvu, höfuðborg Rússlands, að morgni þriðjudags 30. maí. Svo virðist …