Home / Fréttir / Merkel segir Pútin að leysa landamæravanda

Merkel segir Pútin að leysa landamæravanda

Angela Merkel og Vladimir Pútin

Pólsk stjórnvöld sögðu miðvikudaginn 10. nóvember að tugir farenda (e. migrants) hefðu verið teknir höndum eftir að þeim tókst að brjótast í gegnum gaddavírsgirðingar á landamærum Póllands og Hvíta-Rússlands.

Tomasz Krupa, talsmaður pólsku landamæralögreglunnar, sagði að á einum sólarhring hefði rúmlega 50 manns tekist að komast á ólögmætan hátt yfir landamærin. Sumir hefðu sloppið úr höndum lögreglu.

Landamæradeilan nær út fyrir Pólland og Hvíta-Rússland. Angela Merkel Þýskalandskanslari ræddi við Vladimir Pútin Rússlandsforseta í síma miðvikudaginn 10. nóvember og hvatti hann til að láta málið til sín taka, það væri með öllu óviðunandi að beita farendum á þennan hátt gegn Evrópusambandinu.

Í tilkynningu frá skrifstofu Pútins segir að hann vilji að milliliðalausar viðræður verði milli fulltrúa stjórnar Hvíta-Rússlands og ESB. Þá kom einnig fram að Merkel og Pútin ætluðu að tala saman að nýju.

Rússnesk og hvítrússnesk stjórnvöld segja alrangt að farendum sé beitt eins og hverju öðru tæki í valdabaráttu, vandræðin við landamærin megi rekja til „ögrana“ úr vestri.

Mariusz Blaszczak, varnarmálaráðherra Póllands, sagði að ástandið við landamærin væri ekki „rólegt“. Litlir hópar reyndu enn miðvikudaginn 10. nóvember að komast yfir landamærin inn í Pólland.

Pólski herinn sakar hvítrússneska hermenn um að hleypa af byssum sínum til að hræða farendur þar sem þeir hafa komið sér fyrir í frumstæðum búðum innan Hvíta-Rússlands.

Stjórn Litháens lýsti neyðarástandi frá með miðnætti aðfaranótt 10. nóvember og gildir það í einn mánuð við landamærin gagnvart Hvíta-Rússlandi. Þriðjudaginn 9. nóvember stöðvuðu landamæraverðir að minnsta kosti 170 farendur sem reyndu að komast inn í Litháen.

Dmitri Peskov, talsmaður Púrtins, hafnar ásökunum Mateusz Morawieckis, forsætisráðherra Póllands, um að Pútin standi að baki aðgerðum Alexanders Lukasjenkos, forseta Hvíta-Rússlands, á landamærunum sem helsti „bakhjarl“ hans. Sagði Peskov ummæli pólska forsætisráðherrans „algjörlega óábyrg og óviðunandi“.

Æ meiri athygli beinist að þætti rússneskra stjórnvalda í þessum aðgerðum Lukasjenskos. Talsmaður ESB sagði þriðjudaginn 9. nóvember að grunur væri um að flugvélar frá Rússlandi kæmu að flutningi fólks til Hvíta-Rússlands en vélar frá 20 löndum eru taldar geta komið þar við sögu.

 

 

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …