Home / Fréttir / Merkel segir pólitískt „svigrúm“ gagnvart Bretum vegna Brexit

Merkel segir pólitískt „svigrúm“ gagnvart Bretum vegna Brexit

Angela Merkel með Akihito Japanskeisara og túlki.
Angela Merkel með Akihito Japanskeisara og túlki.

Angela Merkel Þýskalandskanslari sagði á fundi með fulltrúum viðskiptalífsins í Tókío þriðjudaginn 5. febrúar að enn væri „svigrúm“ til að ná samkomulagi við Breta um úrsögn þeirra úr ESB. Þennan sama þriðjudag var Theresa May, forsætisráðherra Breta, í Belfast á Norður-Írlandi og ræddi leiðir til að tryggja hindrunarlaus samskipti milli beggja hluta Írlands eftir úrsögnina.

Angela Merkel lýsti bjartsýni um að pólitísk lausn kynni enn að finnast vegna úrsagnar Breta úr ESB. Hún sagði við japanska kaupsýslumenn að hvað sem liði úrsagnardeginum 29. mars og að Brusselmenn höfnuðu öllum breytingum á fyrirliggjandi samningi um skilnað Breta við ESB gætu Bretar enn komist að einhvers konar samkomulagi við sambandið.

„Frá pólitískum sjónarhóli er enn svigrúm,“ sagði Merkel. „Til að nýta það væri þó mjög mikilvægt að vita nákvæmlega hvað Bretar sjá fyrir sér í samskiptum sínum við ESB.“

Kanslarinn hvatti til þess að „velvilji“ og „hugmyndaflug“ yrði leiðarljós við að finna Brexit-lausn. Þrátt fyrir að írski varnaglinn væri vandasamur „ætti að vera unnt að beita mannlegum mætti á þann hátt að leysa mætti svo vel skilgreint vandamál“.

Merkel er á tveggja daga ferð til Japans og talaði um Brexit á fundi um fjármál og efnahagsmál í Tókíó.

May á Norður-Írlandi

Sama dag og Angela Merlel ræddi við japanska kaupsýslumenn í Tókío var Theresa May í Belfast á Norður-Írlandi og ræddi við kaupsýslumenn þar. Hún lofaði þeim að tryggja þannig samning við ESB að hann nyti „víðtæks stuðnings“ og meirihluta á þingi.

Arlene Foster, formaður Lýðræðislega sambandsflokksins (DUP), sem tryggir May meirihluta á þingi, sagði að „eitraði varnaglinn“ varðandi Írland væri enn vandamálið. Því miður vildu Brusselmenn ekki horfast í augu við það og nauðsyn þess að virða kröfur sambandssinna á Norður-Írlandi.

Framkvæmdastjórn ESB hefur staðfest að Theresa May verði í Brussel fimmtudaginn 7. febrúar til að ræða við Jean-Claude Juncker, forseta framkvæmdastjórnarinnar.

Forsætisráðherra Írska lýðveldisins, Leo Varadkar, hittir Juncker miðvikudaginn 6. febrúar.

 

Skoða einnig

Úkraínuher segist hafa grandað rússnesku herskipi við Eystrasalt

Úkraínuher hefur tekist til þess að sökkva eða valda tjóni á 22 rússneskum herskipum á …