
Eftir að Angela Merkel Þýskalandskanslari hitti Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra í Berlín mánudaginn 19. mars hélt hún til Varsjár, höfuðborgar Póllands, í von um að bæta samskiptin við næstu nágranna Þjóðverja í austri, Pólverja. Þau hafa versnað vegna ágreinings um réttarríkið, útlendingamál og flóttamannastefnu. Þá hafa nýsett pólsk lög um gyðingaofsóknirnar og afstaða Pólverja til nýrrar gasleiðslu ekki bætt samband þjóðanna.
Fyrsta utanlandsferð Merkel eftir að hún tók formlega við embætti kanslara í fjórða sinn var til Parísar. Nú heimsækir hún Andrzej Duda, forseta Póllands, og Mateusz Morawiecki forsætisráðherra.
Þýska fréttastofan DW segir að Merkel muni leggja áherslu á nauðsyn samstöðu innan ESB og að Þjóðverjar muni virða skuldbindingar sinnar innan NATO um útgjöld til varnarmála.
Merkel verður að finna jafnvægi milli þess að fá Pólverja til að styðja ESB og að virða jafnframt grundvallarreglur ESB sem Pólverjar hafa ögrað með víðtækum breytingum á dómskerfi sínu.
Ráðamenn innan ESB og í Berlin líta á breytingar Pólverja á dómskerfi sínu sem árás á sjálfstæði þess. Pólska stjórnin segir hins vegar að breytingarnar séu nauðsynlegar til að uppræta spillingu.
Þá hefur pólska stjórnin sætt gagnrýni fyrir nýsamþykkt lög sem banna ákveðin ummæli um gyðingaofsóknirnar í síðari heimsstyrjöldinni. Gagnrýnendur laganna segja að í þeim felist afneitun á aðild ýmissa Pólverja að gyðingaofsóknunum.
Pólska stjórnin hefur af þunga lagst gegn stefnu ESB um að dreifa hælisleitendum um ESB-ríkin á grundvelli kvótareglna. Hún gagnrýnir einnig Nordstream 2 gasleiðsluna sem lögð verður frá Rússlandi til Þýskalands framhjá Póllandi og Úkraínu.
Heiko Maas, nýr utanríkisráðherra, hitti pólskan starfsbróður sinn föstudaginn 16. mars. Hvatti Maas til þess að leitað yrði leiða til að sætta ríki vestur og austur hluta ESB.
Utanríkisráðherrarnir hvöttu til þess að Weimar-þríhyrningurinn yrði endurvakinn, stjórnmálasamstarf milli Pólverja, Þjóðverja og Frakka. Síðasti fundur af þessu tagi var haldinn á árinu 2016.