Home / Fréttir / Merkel óttast hernaðarátök loki Þjóðverjar landamærum sínum

Merkel óttast hernaðarátök loki Þjóðverjar landamærum sínum

Angela Merkel á framtíðarfundi CDU í Darmstadt mánudaginn 2. nóvember 2015.
Angela Merkel á framtíðarfundi CDU í Darmstadt mánudaginn 2. nóvember 2015.

Angela Merkel Þýskalandskanslari varði stefnu sína í útlendingamálum á fundi flokks síns, CDU, í Darmstadt að kvöldi mánudags 2. nóvember. Hún sagði að með því að koma á fót „biðsvæðum“ yrði auðveldast að brottvísa þeim sem ættu engan rétt á hælisvist í Þýskalandi. Gripu Þjóðverjar til þess ráðs að loka landamærum sínum gagnvart Austurríki kynni það að leiða til „hernaðarátaka“ að nýju á Balkanskaga.

Merkel vísaði til reynslunnar af því þegar Ungverjar lokuðu landamærum sínum. Það hefði leitt til þess að fólk leitaði til Króatíu, Slóveníu eða Rúmeníu. Reistu Þjóðverjar girðingu á landamærunum gagnvart Austurríki myndi fólk leita annarra leiða inn í Þýskaland. Þjóðverjar væru fjölmenn ESB-þjóð og stjórn þeirra væri skylt að finna sameiginlega lausn á flóttamannavandanum í Evrópu. Í því efni yrði að stíga skref fyrir skref og sagðist kanslarinn viss um að á þann veg yrði unnt að takast á við þennan vanda og leysa hann.

CDU heldur nú stórfundi víða um Þýskaland um framtíðarstefnu flokksins. Fyrir skömmu flutti Merkel ræðu á slíkum fundi í borginni Schkeuditz í Saxlandi, í austurhluta Þýskalands. Þar mætti hún kuldalegu viðmóti og jafnvel óvild vegna flóttamannastefnunnar. Í Frankfurter Allgemeine Zeitung segir þriðjudaginn 3. nóvember að í Darmstadt í Hessen, í vesturhluta Þýskalands, hafi fundarmenn staðið upp og fagnað Merkel innilega frá því að hún gekk í salinn og að ræðupúltinu. Telur blaðið að þetta sýni og sanni ólík viðhorf Þjóðverja til flóttamanna eftir því hvort þeir búa í Austur- eða Vestur-Þýskalandi.

Marcel Fratzscher, forseti Deutsche Institut für Wirtschaftsforschung (DIW), Þýsku hagrannsóknarstofnunarinnar, sagði við Die Welt að umræðurnar um komu flóttamanna til landsins væru alltof einhliða. Látið væri eins og þeim fylgdu aðeins skattaálögur og opinber útgjöld. Rannsóknir sýndu hins vegar að eftir fimm til sjö ár skiluðu þeir meira í þjóðarbúið en þeir hefðu þegið frá því. Framlag flóttamanna til atvinnulífsins leiddi til aukinnar framleiðslu sem gagnaðist einnig samstarfsmönnum þeirra og þjóðinni allri.

Angela Merkel hittir Sigmar Gabriel, vara-kanslara og leiðtoga jafnaðarmanna, á fundi fimmtudaginn 5. nóvember í þeim tilgangi að ná samkomulagi milli stjórnarflokkanna um stefnuna í útlendingamálum. Jafnaðarmenn hafa lagst gegn hugmynd Merkel um „biðsvæði“, þeir vilja að skrásetningarstöðvar verði opnaðar víðsvegar um Þýskaland og aðkomufólkinu veitt meira svigrúm en Merkel vill.

Dómari krefst umbóta í Calais

Stjórnsýsludómari í Lille í Norður-Frakklandi úrskurðaði mánudaginn 2. nóvember að grípa yrði til aðgerða í flóttamannabúðunum í strandborginni Calais við Ermarsund í því skyni að auka hreinlæti. Búðirnar eru kallaðar „Frumskógurinn“, vill dómarinn að þar verði komið upp 10 nýjum vatnsstæðum, hver með fimm krönum, salernum verði fjölgað um 50. Þá verði að hirða sorp og fjarlægja drasl úr búðunum. Þetta verði að gerast innan átta daga annars verði krafist 100 evru dagsekta.

Hjálparstofnanir og mannréttindasamtök hafa um langt skeið gagnrýnt aðstæður í flóttamannabúðunum þar sem flóttamennirnir hafa sjálfir komið sér upp tjöldum. Nú sé þar kalt, rok og rigning hjá fólki sem flest kemur frá Afríku en þarna eru einnig Írakar, Íranir og Sýrlendingar. Í hópnum eru margar fjölskyldur með börn.

Yfirvöld segja að um 6.000 manns séu nú í „Frumskóginum“ og hafi fjöldinn tvöfaldast á einni viku. Markmið fólksins er að koma yfir Ermarsund til Bretlands. Hert hefur verið á aðgerðum til að hindra för þess og því fjölgar jafnt og þétt í „Frumskóginum“.

Heimild: FAZ og DPA

 

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …