Home / Fréttir / Merkel ósammála hörðum dómi Macrons um NATO

Merkel ósammála hörðum dómi Macrons um NATO

Jens Stoltenberg og Angela Merkel í Berlín 7. nóvember 2019.
Jens Stoltenberg og Angela Merkel í Berlín 7. nóvember 2019.

Skömmu eftir að neikvæð ummæli Emmanuels Macrons Frakklandsforseta um NATO og „heiladauða“ bandalagsins birtust fimmtudaginn 7. nóvember sagði Angela Merkel Þýskalandskanslari á blaðamannafundi í Berlín með Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra NATO, að Macron hefði kveðið „fast að orði“.

„Frakklandsforseti hefur kveðið fast að orði. Þetta er ekki afstaða mín til samstarfsins innan NATO. Ég tel að ekki sé nauðsynlegt að reiða svo hátt til höggs,“ sagði Merkel við hliðina á Jens Stoltenberg

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, var föstudaginn 8. nóvember í Berlín til að minnast þess að laugardaginn 9. nóvember eri 30 ár liðin frá því að Berlínamúrinn féll

Utanríkisráðherrann hefur rætt Atlantshafssamskiptin við Annegret Kramp-Karrenbauer, varnarmálaráðherra Þýskalands og formann flokks kristilegra demókrata, CDU. Hún hvetur til þess að Þjóðverjar láti meira að sér kveða hernaðarlega utan Þýskalands og Evrópu.

Í ræðu sem Pompeo flutti við Brandenborgar-hliðið í hjarta Berlínar fór hann eins og oft áður gagnrýnisorðum um Kína og sagði að þar væri almenningur beittur harðræði af hálfu yfirvalda sem minntu „illilega“ á það sem íbúar í kommúnistaríkinu í Austur-Evrópu máttu þola.

Pompeo sagði að í Rússlandi væru þeir við völd sem „ráðast á nágranna sína og drepur pólitíska andstæðinga“.

Mike Pompeo ræddi við Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýskalands, fimmtudaginn 7. nóvember og áréttuðu þeir báðir mikilvægi NATO. Pompeo bar lof á Þjóðverja og sagði þá „frábæra samstarfsmenn“ við lausn margvíslegra alþjóðamála þótt stjórnvöld í Washington og Berlín væru stundum „ósamstiga“.

María Zakharova, upplýsingafulltrúi rússneska utanríkisráðuneytisins sagði orð Macrons „gullvæg“. Þau eru „einlæg og snerta kjarna málsins,“ sagði hún á Facebook og einnig: „Rétt skilgreining á núverandi stöðu NATO.“ Frakklandsforseti fór þó jafnframt hörðum orðum um stjórnarhætti í Rússlandi í viðtalinu og sagði þá ekki „verjanlega“.

 

Skoða einnig

Úkraínuher segist hafa grandað rússnesku herskipi við Eystrasalt

Úkraínuher hefur tekist til þess að sökkva eða valda tjóni á 22 rússneskum herskipum á …