Home / Fréttir / Merkel og Macron gera tillögu um ESB-kórónusjóð

Merkel og Macron gera tillögu um ESB-kórónusjóð

Emmanuel Macron og Angela Merkel á fjar-blaðamannafundi 18. maí 2020.
Emmanuel Macron og Angela Merkel á fjar-blaðamannafundi 18. maí 2020.

Angela Merkel Þýskalandskanslari og Emmanuel Macron Frakklandsforseti tilkynntu mánudaginn 18. maí að þau vildu standa að því að komið yrði á fót sjóði með 500 milljörðum evra til að blása nýju lífi í evrópskt efnahagslíf eftir áfallið vegna COVID-19-faraldursins.

Stjórnmálaskýrendur lýsa þessari ákvörðun leiðtoganna sem sigri fyrir Macron sem tekist hafi að fá Merkel til að fallast á að auðug norðlæg ESB-ríki létu fé af hendi rakna til fátækra ESB-ríkja í suðri.

Merkel og Macron héldu sameiginlegan blaðamannafund með fjarbúnaði og áréttuðu nauðsyn aðgerða til að „sameina öll aðildarríkin“.

Sebastian Kurz, kanslari Austurríkis, sagðist hafa rætt hugmynd Frakka og Þjóðverja við forsætisráðherra Danmerkur, Hollands og Svíþjóðar. Þeir hefðu efasemdir um „kórónaskuldabréf“ og myndu kynna gagnrýni sína á vettvangi ESB.

Hugmyndin er að framkvæmdastjórn ESB gefi út skuldabréf og selji á almennum markaði til að mynda 500 milljarða evru sjóðinn. Hann yrði utan við fjárlög ESB og 540 milljarða evru lánin sem Evruhópurinn hefur nú þegar ákveðið að veita.

Macron og Merkel lögðu áherslu á að aðildarríkin 27 yrðu að samþykkja tillöguna og margt væri enn óráðið varðandi framkvæmd hennar, meðal annars hvernig staðið yrði í skilum við framkvæmdastjórnina vegna greiðslna úr sjóðnum.

„Það er ekki unnt að bera þessa krísu saman við neina aðra krísu í sögu Evrópusambandsins,“ sögðu Merkel og Macron í tilkynningu sinni.

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, fagnaði tillögunni. Sagði hún að í henni fælist viðurkenning á þeim gífurlega efnahagsvanda sem blasti við Evrópuþjóðunum.

Yfirlýst markmið stjórna Frakklands og Þýskalands er tryggja óskoraða stöðu ESB á heilbrigðissviðinu með því að stórefla rannsóknir og þróun á sviði bóluefna og lækninga samhliða því sem komið verði upp sameiginlegum birgðum af lyfjum og lækningatækjum.

Þá er ætlunin að stofna til samstarfs í heilbrigðismálum til að þróa viðbragðs- og aðgerðaáætlanir einstakra ríkja gegn faröldrum í framtíðinni og samræmingu á söfnun og nýtingu heilbrigðisgagna.

Þá vilja Frakkar og Þjóðverjar einnig hraða innleiðingu starfrænna lausna í Evrópu og stuðla að átaki í umhverfismálum.

Hugmyndin um kórónaskuldabréf hefur verið til umræðu innan ESB undanfarið og hafa stjórnir Ítalíu, Spánar og Portúgals hvatt til aukinnar samstöðu aðildarþjóðanna og þar með að sameiginlega verði tekið á skuldum til að takast á við vanda vegna COVID-19-faraldursins.

Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu, sagði á Twitter að fransk-þýska tillagan væri „mikilvægt skref í rétta átt“.

Pedro Sanchez, forsætisráðherra Spánar, sagði á samfélagsmiðli: „Við fögnum tillögu Frakka og Þjóðverja um að koma á fót 500 milljarða evru evrópskum endurheimtusjóði sem veitir styrki“ og hann bætti við „nú er tímabært að ESB kynni raunverulegan fjármálapakka“.

Sebastian Kurz, kanslari Austurríkis, sagði hins vegar á Twitter að hann hefði rætt við leiðtoga Dana, Hollendinga og Svía um tillöguna og „afstaða þeirra er óbreytt“. „Við erum fúsir til að veita lán til ríkjanna sem urðu verst úti.“

 

 

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …