
Leiðtogaráð ESB-ríkjanna kom saman í Brussel þriðjudaginn 28. maí til að ákveða hvernig staðið yrði að vali manna í æðstu embætti Evrópusambandsins nú að loknum þingkosningunum þar. Fimm embætti eru talin skipta mestu: forseti framkvæmdastjórnar ESB, forseti leiðtogaráðs ESB, forseti ESB-þingsins, forseti bankaráðs seðlabanka evrunnar og utanríkismálastjóri ESB.
Ágreiningur er innan leiðtogaráðsins um hvort farið skuli að reglunni um spitzenkandiat, það er oddvita einstakra þingflokka, eða velja á milli manna án tillits til hennar.
Eftir fundinn sagði Donald Tusk, forseti leiðtogaráðsins, að það þyrfti að huga að kynjahlutfalli við val á fólki í þennan hóp. Emmanuel Macron Frakklandsforseti sagði æskilegt að tvær konur yrðu í honum. Sjálfur styður hann Margrethe Vestager, fulltrúa ALDE-þingflokks frjálslyndra. Macron á nú í fyrsta sinn eigin flokksmenn á ESB-þinginu og ganga þeir til liðs við ALDE.
Macron leggst gegn því fyrirkomulagi að oddvitar þingflokka séu þeir sem komi fyrst til álita. Hann segist vilja mann með reynslu, meðal annars af setu í ríkisstjórn af starfi í alþjóðastofnun. Þar með útilokar hann Manfred Weber, oddvita EPP-flokksins, stærsta þingflokksins. Weber kemur úr röðum CSU-manna í Bæjaralandi og nýtur stuðnings Angelu Merkel,
Þau Merkel og Macron eru því ósammála um leiðina við valið. Þau ætla að hittast í Aachen fimmtudaginn 30. maí og ræða málið. Stefnt er að því að skipan manna í forystusætin liggi fyrir þegar leiðtogaráð ESB kemur saman til fundar 20. og 21. júní
Hugsanlegt er talið að Merkel og Macron sættist á Michel Barnier sem forseta framkvæmdastjórnarinnar. Hann er Frakki úr EPP-flokknum og hefur leitt brexit-viðræðurnar af hálfu ESB.
Angela Merkel Þýskalandskanslari sagði mánudaginn 27. maí að flokkur hennar (CDU) og samstarfsflokkur hennar í Bæjaralandi undir merkjum kristilegra (CSU) vildi halda í oddvitaregluna og þýskir jafnaðarmenn sem sitja í stjórn með CDU/CSU væru sömu skoðunar.
Þjóðverjinn Manfred Weber frá CSU var oddviti EPP-flokksins í kosningunum. Þótt flokkurinn tapaði umtalsverðu fylgi í kosningunum að þessu sinni er hann enn stærsti ESB-þingflokkurinn.
Emmanuel Macron Frakklandsforseti sagði mánudaginn 27. maí að oddvitareglan væri ekki sjálfvirk. Flokkur Macrons hefur oft lýst andstöðu við regluna.
Fyrir kosningarnar nú átti flokkur Macrons enga kjörna þingmenn á ESB-þinginu en nú er talið að þeir verði 23. Þeir verða líklega fjölmennasti þjóðarhópurinn í ALDE-þingflokki frjálslyndra, þriðja stærsta þingflokknum innan ESB, á eftir EPP (mið-hægri) og S&D (mið-vinstri).
Þingmenn Macrons hafna Manfred Weber frambjóðenda Merkel. Pascal Canfin, ESB-þingmaður úr flokki Macrons, sagði í útvarpsviðtali 27. maí að ekki yrði gengið fram hjá sér og félögum sínum á þinginu. Ekki væri unnt að mynda þar meirihluta án stuðnings þeirra.