
Martin Schulz, forseti ESB-þingsins, bauð Angelu Merkel Þýskalandskanslara og François Hollande Frakklandsforseta til óformlegs kvöldverðar sunnudaginn 7. febrúar í Strassborg. Eftir kvöldverðinn var sagt að forsetinn og kanslarinn væru sammála um öll meginmál. Þau hefðu sama viðhorf til flóttamannavandans í Evrópu og til þess hvernig ætti að taka á Brexit, það er samningum við David Cameron, forsætisráðherra Breta. Bæði málin verða efst á dagskrá fundar leiðtogaráðs ESB 18. og 19. febrúar.
Leiðtogarnir lýsa yfir einhuga afstöðu til þess hvernig eigi að stemma stigu við straumi flóttamanna með því að hrinda tafarlaust í framkvæmd sameiginlegri evrópskri aðgerðaáætlun. Í henni felst meðal annars aðstoð við Grikki við landamæravörslu, aukinn þungi við skráningu hælisleitenda sem leita inn á Schengen-svæðið en einnig hertar aðgerðir gegn þeim sem eiga ekki rétt til hælisumsóknar og auknar ráðstafanir til að fjölga og flýta fyrir endursendingum fólks.
Í aðgerðaáætlun ESB er einnig gert ráð fyrir aðstoð við stjórn Tyrklands til að auðvelda henni að taka á móti flóttafólki í landi sínu og búa því þar aðstæður sem dragi úr ásókn til annarra landa. Frá Strassborg hélt Angela Merkel til Tyrklands þar sem hún hitti Recep Tayyip Erdogan forseta og Ahmet Davutoglu forsætisráðherra mánudaginn 8. febrúar.
Fyrir fund forsetans og kanslarans voru vangaveltur í fjölmiðlum um að þau greindi á um kröfu Tyrkja um afnám vegabréfsáritunar inn á Schengen-svæðið. Eftir kvöldverðinn var ekki minnst á það mál.
François Hollande og Angela Merkel ræddu ástandið í Sýrlandi og lýstu miklum áhyggjum vegna árása liðsmanna Bashars Al-Assads Sýrlandsforseta með aðstoð rússneskra sprengjuvéla á borgina Aleppo sem andstæðingar Assads höfðu að hluta á valdi sínu. Árásarnir hafa knúið fram nýja bylgju flóttafólks. Stjórnvöld í Tyrklandi segja að allt að 70.000 manns hafi haldið frá Aleppo í átt til landamæraTyrklands á flótta undan her Assads og rússneska flughernum.
Að því er varðar Brexit var það niðurstaða Merkel og Hollandes að tryggja bæri framgang þess samkomulags sem nú lægi fyrir við Breta á næsta fundi leiðtogaráðs ESB og koma þannig í veg fyrir að Bretar segðu skilið við ESB.
Heimild Le Monde